01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í C-deild Alþingistíðinda. (1286)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Sigurðsson:

Háttv. þm. G.-K. (Kr. D.) réðst á okkur flutningam. breyt.till., sem fer fram á það, að jafnframt inum 6 hlutfallakjörnu þingm., skuli sjálfkjörnir til Ed. þeir 4 þingm., er lengst hafa átt sæti á þingi. Mér skildist svo sem hann áliti það nokkurs konar móðgun við þessa menn að kippa þeim úr neðri deild og upp í efri deild. En slíkt er alveg fráleitt. Eg gat þess í dag, að þessi till. miðar að því, að ná þeim tilgangi, sem flestir hafa haft fyrir augum, þegar um skipun Ed. er að ræða, sem sé að skapa í hana festu og hæfilegt íhald. En að einstakir þm. hafi, eða geti haft, nokkuð á móti því, að vera fluttir upp í Ed. þegar þeir hafa þingaldur til, það skil eg ekki. Þeim ætti einmitt að þykja sómi að því, að hafa þann þingaldur, að þeir séu sjálfsagðir í Ed. eftir skýlausum fyrirmælum laganna. Og yfirleitt hefi eg ekki orðið var við það, að þm. kunni neitt ver við sig í Ed. en Nd. Sjálfur hefir þessi hv. þm. setið Ed. í 2 ár, og undi víst vel hag sínum.

Þá hafa og komið fram mótmæli úr sömu átt gegn breyt.till. minni, háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) og háttv. þm. Ak. (M. Kr.) á þgskj. 577, sem fer fram á það, að fella burtu síðari hluta 19. gr., sem gerir ráð fyrir að menn utan þjóðkirkjunnar greiði gjald sem svararkirkjugjöldunum, til háskólans. Háttv. þingm. sagði að þessi till. okkar væri grímuklæddur aðskilnaður ríkis og kirkju, en það er langt frá því. Hann sagði, að það væri betra að fara hreinlega að og aðskilja ríki og kirkju atrag. Það er nú ekki hægt, því að stjórnarskráin ákveður, að hér á landi skuli vera þjóðkirkja. Stjórnarskrárbreytingin verður því að ganga á undan, áður en hægt er að ganga inu á skilnaðarbrautina, og það vona eg að verði gert. Þegar þetta ákvæði er ekki lengur til, þá verður farið að undirbúa skilnaðinn.

Háttv. þm. vildi bera þetta saman við það, að nú verða allir að borga til ellistyrktarsjóðs, hvort sem þeir notuðu hann nokkurn tíma eða aldrei. En hér er ólíku saman að jafna Það getur enginn vitað það fyrirfram, hvort hann kann að þurfa á styrktarsjóð að halda eða ekki. Jafnvel þótt að svo liti út um eitt skeið, að ekki muni koma til þess, þá getur svo farið, að það hendi þá sem sízt skyldi og fæstir hefðu búist við. En hvað býður þjóðkirkjan sínum mönnum ? Eg veit ekki til, að það séu nein sérstök hlunnindi, sem þeir megi ekki án vera og geti ekki fengið annarstaðar.

Háttv. 1. þingm. Rvk. (L. H. B.) var líka eitthvað að taka í sama strenginn, að það væri sama sem að tæma kirkjurnar, ef þessi till. okkar yrði samþykt. Eg verð nú að segja það, að það er ekki mikið traust, sem þessir menn bera til kirkjunnar. Og ef hún er ekki betur stödd en svo, að allir muni ryðjast úr henni um leið og þeir losna við gjöldin, þá er hún sannarlega á horleggjunum og henni ekki viðreisnar von, og þá er líka kominn tími til þess, að hún fái að leysast upp. En það er misskilningur og rangar getsakir hjá háttv. 2. K.G. (Kr. D.), sem virtist mega lesa á milli línanna hjá honum, að við séum að ganga í bandalag með vantrúar- og æsingamönnum móti þjóðkirkjunni. Eg þori nú fyrst og fremst að fullyrða það, að margir geta verið eins miklir trúmenn, sem ekki eru bundnir á hennar klafa, eins og hinir, sem í henni hanga. Og sömuleiðis skal eg geta þess, að eg tel það alls ekki kost á neinum manni, þótt hann sé trúlaus. En hins vegar vil eg ekki stuðla að því, að halda við ranglátum böndum, sem hver maður ætti að finna að ekki eru samboðin frjálsri þjóð í frjálsu landi. Það er líka langt frá því, að við, flutn.m. þessarar till., höfum fundið upp þetta púður. Þetta er almenn krafa, sem fjöldi manns fylgir fram. Og þetta ástand og þessi viðleitni að þröngva kosti þeirra, sem ekki eru í neinu kirkjufélagi, hlýtur að flýta fyrir skilnaði ríkis og kirkju, og það álít eg nú ekki reyndar það versta, sem fyrir gæti komið.