02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í C-deild Alþingistíðinda. (1300)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg get skírskotað að miklu leyti til nefndarálitsins, þótt ekki sé langt. Þar er tekið fram, hvers vegna nefndin félst á að sinna þessu máli. Háttv. flutnm. þessa máls gerði einnig grein fyrir því við 1. umr. Nefndin hefir haft fyrir sér uppdrætti og teikningar af fyrirhuguðu hafnarvirki. Henni var það ljóst, að nauðsyn myndi til að koma þessu fyrirtæki fram. Eftir því sem fólkinu fjölgar í Vestmannaeyjum, því meiri verður nauðsynin. Eg vil ekki segja, að þetta sé lífsspursmál, en það er að minsta kosti mikið framfaraspursmál. Þessi höfn, sem gert er ráð fyrir, verður að vísu að mestu leyti fyrir báta og smærri skip, og því aðallega til stuðnings fiskiútvegnum. En hún getur líka orðið til gagns fyrir vöruflutninga á suðurströndinni. Þegar strandferðaskipin eiga að koma við á Stokkseyri, Eyrarbakka eða í Vík, þá er oft að þau fara fram hjá sökum brims og ógæfta. Það geti því orðið til ómetanlegs hagræðis, ef hægt yrði að hafa flutningabát í tryggri höfn í Vesmannaeyjum, sem gæti sætt lagi að komast á þessar hafnir með vörur úr millilandaskipunum, sem þangað koma. Hins vegir er ekki því að neita, að hik kom á nefndina dálítið er hún sá teikningarnar af höfninni. Því að hún á ekki að Vera meira en 4 metrar á dýpt eða 12–13 fet, nema á litlum polli, þar verður hún 5 metrar eða 16 fet. Millilandaskipin gætu því tæplega legið þar inni um fjöru; og ekki víst að fleira en 1 skip komist þar fyrir á þessum polli í einu.

Þessa vill nefndin láta getið; hún vili ekki mæla með frumv. án þess að taka fram það sem athugavert er við málið. Það er enginn vafi á því, að það hefir mikil áhrif á kostnaðinn, að hafnargerðin fari fram í sambandi við Reykjavíkurhöfn. Það er efalaust, að með því að nota þau tæki, sem hér eru nú, verður hafnargerðin ódýrari, en ef fá þyrfti tækin frá útlöndum. Til þess nú að sýslunefndin hafi tíma til að gera útboð, þá þarf frumv. að komast áfram nú. Hins vegar vill nefndin ekki, að styrkurinn verði veittur á næsta fjárhagstímabili, og hefir því komið með viðaukatill. þess efnis, að ekki verði greiddur styrkurinn fyr en 1916. En líklegt er, að samninga þurfi að gera fyrir næsta þing, og því þurfi lögin að vera til.

Þá skal eg snúa að breyt.till. Þær eru á þgskj. 623.

1. brtill. er að eins leiðrétting. Í 1. gr. frv. er farið fram á, að landssjóður leggi 1/4 til, en 1/4 af áætluðri upphæð er ekki 83,000 kr., heldur 62,500 kr. Lengra vill nefndin ekki fara. Nefndinni heyrðist á háttv. flutnm. (J. M.), að ekki mundi Standa á því að fá peninga til hafnarinnar, að eins ef landssjóður tæki að sér ábyrgðina á 8/4 áætlunarkostnaðarins. Hefir nefndin lagt til að sú ábyrgð yrði tekin, og ábyrgðarupphæðin færð upp að sama skapi, sem hin niður.

Hitt er flest lítils háttar breytingar.

Þó er við 4. gr., 1. málsgr., lagt til, að þar sem kemur til breytingar á þeim mannvirkjum, sem nú eru við hafnarstæðið, skulu einnig koma til samþykki stjórnarráðsins. Eyjarnar eru landssjóðs eign, og því eðlilegt að stjórnin hafi sem mest má verða hönd í bagga með mannvirkjum þar. Í samræmi við það er og lagt til, að reikningar hafnarinnar úrskurðist af stjórnarráðinu. Nefndin álítur ekki rétt, að sýslunefndin sé þar ein um hituna.

Þá hefir nefndin og lagt til, að undanskilja frá ákvæðum 4. gr. samning, sem stjórnarráðið hefir gert við nafngreindan mann á síðastliðnum vetri um leigu á lóð. Nefndin leit svo á, að ekki væri hægt að ganga fram hjá þessum samningi, enda er hann gerður með samþykki þeirra sem hlut eiga að máli.

Nefndinni þótti óviðkunnanlegt orðið »löggæzlumaður«, og leggur til að breyta því í »sýslumaður«, þar sem það kemur fyrir á frumv.

Loks er brtill. við 15. gr. um, að fella niður síðasta hluta greinarinnar, orðin: »nema brýna nauðsyn beri til«. Nefndin lítur svo á, að með þessum orðum sé hafnarnefnd gefið undir fótinn með að fara fram úr áætlun, án samþykkis stjórnarráðsins. En á það getur nefndin með engu móti fallist.

Aðrar brtill. eru orðabreytingar, sem eg þarf ekki að minnast á.