02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í C-deild Alþingistíðinda. (1308)

26. mál, sparisjóðir

Kristinn Daníelsson:

Eg verð að segja örfá orð líka, því að eg hefi skrifað undir ágreiningsálit minni hlutans í þessu máli. Gerði eg það vegna þess, að eg var minni hlutanum algerlega samdóma í aðalatriðinu, að það sé mjög varhugavert að setja fastan umsjónarmann yfir alla sparisjóði á landinu, eins og gert er ráð fyrir í frumv. Mér virtist óhjákvæmilegt að það þyrfti að fá einhverja reynslu á lögunum, og á þeirri reynslu mætti svo væntanlega byggja æskilegar breytingar seinna. En þegar búið væri að setja fastan umsjónarmann, væri óhægra að breyta til og taka af honum starfið, þar sem hann á að lifa á því, þó að launin, sem honum ætluð, séu engan veginn nægileg til að lifa af þeim eingöngu. Mér þykir hugsanlegt að annað fyrirkomulag yrði heppilegri, til dæmis að setja sparisjóðina í samband við landsbankann og hann léti svo trúnaðarmenn sína annast eftirlitið. Þess vegna hallaðist eg að þeirri niðurstöðu minni hlutans, að hafa þetta fyrirkomulag til bráðabirgða. þótt eg telji það að vísu ljóð á vera, að sparisjóðunum er ætlað að borga kostnaðinn við eftirlitið. Eg álít rétt, að landssjóður borgi þetta eftirlit, og býst eg við að til þess gengi ekki meira en þessar 1200 kr., sem ætlaðar eru einum eftirlitsmanni. Annars gæti þetta eftirlit orðið tilfinnanlegur skattur á sparisjóðunum, en munar landasjóð hins vegar ekki miklu; mun eg ef til vill koma með brtill. í þessa átt. Þessa vildi eg geta, að eg tel það mjög varhugavert að setja þennan 1200 kr. eftirlitsmann, því að eg óttast að eftirlitið yrði með því móti ekki nema hálfverk, þar sem þessi maður yrði að vinna að því í hjáverkum sínum.

Svo skal eg stuttlega benda á nokkur atriði önnur, sem eg hefi sett fyrir mig. Í 9. gr. er svo ákveðið, að féhirðir megi einn veita móttöku fé til sjóðsins, en kvittun hans sé því að eina skuldbindandi fyrir sjóðinn, að hún sé meðundirrituð af bókara. Þetta kann nú í sjálfu sér að vera æskilegt, en hér stendur öðruvís á með sparisjóði heldur en með banka, að ætíð sé hægt að láta bókara skrifa undir líka. Kvittun féhirðis ætti að vera nægileg, því að hann á samkvæmt lögum að setja tryggingu fyrir því fé, sem hann hefir undir hendi, og bera ábyrgð á því. Vitanlega er gengið út frá því, að hann gefi ekki einungis kvittun, heldur riti einnig í viðkomandi bækur.

Þá finst mér líka það ákvæði 13. gr. vera mjög varhugavert, að samanlögð upphæð víxillána og sjálfskuldarábyrgðarlána megi ekki nema meiru en helming af öllu innstæðufé sparisjóðsins. Það kann að vera eins um þetta eins og um hitt, að það sé heppilegt, en það getur orðið bagalegt fyrir smásparisjóði, að mega ekki lána fé móti sjálfskuldarábyrgð, sem oft og tíðum er bezta tryggingin og miklu betri en húsaskrokkar í kaupstöðum. Það getur verið að eg komi til 3. umr. með brtill. til að rýmka um þetta.

Í sömu grein er ákveðið, að sparisjóðir, sem geyma 50 þús. kr. eða meira, skuli hafa auk Varasjóðs, innistandandi í bönkum að minsta kosti 5% af innstæðufénu samanlögðu. Þetta getur líka orðið nokkuð tilfinnanlegt fyrir slíkan sparisjóð, að minka þannig veltufé hans, einkanlega þegar það er borið saman við 17. gr.. þar sem svo er fyrir mælt, að svo mikið af varasjóði skuli jafnan vera handbært í peningum, að nemi að minsta koati 10% af innstæðufé sparisjóðsins. Þetta getur jafnvel orðið sama sem að hafa allan varasjóðinn í peningum, því að 5% af innstæðufénu getur verið varasjóður allur. Ef innstæðuféð er t.d. 30,000 kr., þá verða 5% af því 1,500 kr., en viðkomandi sparisjóður á ef til vill ekki nema 1200–1300 kr. í varasjóði.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta fyr er þá ef umræðurnar gefa tilefni til að standa upp aftur.