02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í C-deild Alþingistíðinda. (1314)

26. mál, sparisjóðir

Ráðherrann (H.H.):

Það er ekki til neins að fara að fara út í kappræður um þetta mál. Háttv. í. þm. G. K. (B. Kr.) gengur út frá alt öðrum grundvelli, en frumv. er bygt á, og koma því hugleiðingar hans ekki frumvarpinu við. Tilgangur frumvarpsins er sá, að reyna að tryggja fé þeirra sem eru að spara aura sína saman. Þetta er aðalmarkmiðið.

Annars skil eg það ekki, að það sé erfiðara að endurskoða reikninga sparisjóða heldur en t.d. Landsbankans, og ekki hafa þeir endurskoðunarmenn verið valdir með bankafróðleikinn sem skilyrði. Meira að segja hefir verið gerður að bankastjóra maður, sem víst engum manni hefir dottið í hug að gæti með nokkru móti talist bankafróður. En ef nú samt verður heimtað meira af eftirlitsmanni sparisjóðanna heldur en þingið hefir heimtað af sömu endurskoðendum Landabankans, sem það hefir kosið, þá býst eg við, að ekki mundi standa á því, að stjórn Landsbankans leyfði þeim manni, sem til þessa starfa yrði valinn, að kynnast bankastörfum og endurskoðun hjá sér um skeið, áður en maðurinn tæki til starfa.

Þó að sparisjóðir tæki lán í bönkun. um, þá sé eg enga ástæðu til þess að bankarnir hefðu eftirlit með þeim fyrir því. Og að bankarnir fá borgun fyrir eftirlitið úr landssjóði nær ekki nokkurri átt. Það er alveg fráleitt.

Get eg því ekki orðið háttv. þingmanni samdóma um það, að þetta sem hann nefndi, sé eina leiðin. Það er áreiðanlega einmitt ekki leiðin til þess að koma fram tilgangi þessa frumvarps.