02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í C-deild Alþingistíðinda. (1330)

29. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg stend upp til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu, af því eg er ekki samdóma, hvorki meiri né minni hluta nefndarinnar. Eg er samdóma meiri hlutanum og stjórninni í því, að rétt sé að heimta, að sveitirnar kosti símana að nokkru leyti, til þess að tryggja landssjóði tekjur. Eg er því ósamdóma háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) í þessu efni, og get því ekki greitt dagskrá hans atkvæði. Eg álít, að hann geti tæplega gert mér sömu getsakir og hann gerði háttv. þm. S.-Þing. (P. J ) um, að eg sé honum ósamdóma vegna þess, að kjósendur mínir hafi fengið símann endurgjaldslaust. Síminn kemur, sem kunnugt er, ekki í land í Suður-Múlasýslu, heldur í Norður-Múlasýslu, og kjósendur mínir kvarta ekkert undan því, og hefðu þeir þó fremur ástæðu til að kvarta en aðrir, vegna þess, að síminn hefði átt að liggja á land á Reyðarfirði. Það hefðu að líkindum orðið færri símslit á Fagradal en Fjarðarheiði. Það er auðsætt, að ekki er hægt að heimta gjald af þeim sveitum, sem fyrsta símalínan var lögð um þær hlutu að fá símann, hvort sem þær vildu til hans kosta eða ekki. Úr því að nú hefir verið ákveðið, að önnur héruð skyldu greiða peninga fyrir að fá símann, þá er mjög viðsjárvert að vera að krukka í það á hverju þingi.

En eg er ekki samdóma meiri hlutanum í því, að fara að veðsetja tekjur landssjóðs, til þess að fá lán til símalagninga. Eg skil ekki, hvers vegna fé laginu finst það aukin trygging, að því verði veðsettar þessar tekjur, heldur en þó að allur landssjóður ábyrgist lánið.

Hitt skil eg, að það er auðmýking fyrir okkur Íslendinga að taka lán með þessum skilyrðum. Eg vil miklu heldur vinna til, að lánið verði dálítið dýrara, heldur en við auðmýkjum okkur svo mikið. Eg get því ekki greitt atkvæði með 2. og 3. gr. frumvarpsins.