02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í C-deild Alþingistíðinda. (1332)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Skúli Thoroddsen:

Eg skal geta þess, til enn frekari áréttingar því sem eg sagði um lántökuna, að með skilyrðum, þeim sem »Norræna ritsímafélagið mikla« setur, að því er til lántökunnar kemur, fæ eg eigi betur séð, en að lýst sé inu mesta vantrausti á skilsemi landsins.

Það er þar farið fram á að beita oss inu versta bragði — bragði, sem annara er ekki notað nema af allra illvígustu misendismönnum í málaferlamannastéttinni, þ.e. því bragði, að búa lánssamningana þannig úr garði, að einatt megi hampa að oss hegningarlaga-vendinum, ef ekki er staðið í skilum.

Vér erum settir á bekk með óskilamönnum, er lakastir eru taldir. Er mönnum þá eigi nóg boðið?

Háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) grömdust að mun ummæli mín. Eg sagði að eins, að ef kjósendur hans hefðu og verið í tölu þeirra, sem átt hefðu að greiða tillag til símans, mundu þeir hafa verið aðmun næmari, og þá eigi háttv, þm. S.-Þing. hvað sízt, að því er það snertir að fnna hvað rétt er.

Hér ræðir þá eigi um annað en það, sem vér alment rekum oss á í lífinu, þ.e. að sá sem illu — þ. e. einhverju siðferðilega röngu — er beittur, verður þá æ næmari og finnur þá fljótara og glöggara en ella, hvað ljótt er og ilt, sem og hve afar-brýn skylda allra það er þá að þola eigi að hann sé því beittur augnablikinu lengur.

Til þess að skýra þetta enn betur þótt skýringar ætti að vísu sízt að vera þörf — skal eg benda á dæmi:

Segjum að að einhver sé — með hernaðar-nauðung, þ.e. þá hér: með hótun um hegningu — neyddur til að fara í styrjöld, rekinn frá heimili til framandi lands. — Hann finnur það þá nær einatt að mun glöggara, hver óhæfa er í frammi höfð, að neyða menn til slíks, en hinn, sem ekki er ætlað í styrjöldina að fara og eigi kennir því þeirrar kvalarinnar, að verða sigað til manndrápa o. s. frv.

Eins er um þann sem ekki hefir nóg fyrir sig og sína að leggja, að hann finnur þá æ næmara til þess en hinn, sem í velliðan er, hve ljótt það er, að tili neyð skuli eigi einatt hvívetna fyrirbygð vera eða þá stöðvuð altafarlaust. ***

Háttv. þingm. S.- Þing. vildi fá vottorð frá þingmönnum um það, að hann væri réttlætis-ímyndin Sjálf, og skoraði á mig að sanna, að hann hefði nokkru sinni sýnt sig að ranglæti.

Eg held nú ekki, að ræða mín hafi gefið tilefni til þeirrar áskorunar, en hygg þó að vísu að finna mætti ýmis dæmin, ef út í það væri farið — dæmin (bæði í fjárveitingum og ella, sbr. t. d. samþykt kosningarinnar í Vestur-Ísafjarðarsýslu í fyrra), sem sýna, að téðum háttv. þingmanni hafi þó eigi einatt verið svo ant um að fylgja fram því einu, er hann vissi rétt vera, sem skyldi.

Annars nægir væntanlega að benda háttv. þingmanni á það, að ið illa, þ.e. siðfræðilega ranga, á aldrei að fremjast — þ. e. ekki í eitt einasta skifti. En hvaða hlutdeild átti eigi þingmaðurinn í ritsímalögunum frá 22. Okt. 1912P Og er hann þar eigi sá, er enn fylgir fram inu ranga og bregzt að eins reiður við, sé honum — sem af mér gert, sbr. nefndarálit mitt og þingræðu mína fyr í dag — bent á ið sanna og rétta. Eg býst nú ekki við, að nokkuð þýði að fara frekara út í þessa sálma. En eg held sem fyr fast fram inni »rökstuddu dagskrá«, sem bent er á í nefndaráliti mínu. Og þótt ið gagnstæða verði hér enn ofan á, þvæ eg mínar hendur — hefi gert mitt til þess að opna svo augu háttvirtra þingdeildarmanna, að þeir finni sér skylt að stuðla að því, að ójafnaðar- og ranglætis-stefnan, sem ofan á varð á aukaþinginu í fyrra, verði ekki ríkjandi áfram í þjóðfélagi voru.

1) Þessi dagskrá er í skjalaparti á tilvitnuðum stað, en hana vantar í registrið eins og fleiri rökstuddar dagskrár.