02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í C-deild Alþingistíðinda. (1336)

88. mál, lögskipaðir endurskoðendur

Frams.m. meiri hlutans (Jón Ólafsson); Herra forseti! Nefndin er öll á einu máli um það, að æskilegt sé að hafa hér löggilda endurskoðendur; um það var enginn ágreiningur í nefndinni.

Frumvarpið sjálft er stutt, að eins þrjár greinir, og felur í sér fáar ráðstafanir. En það sem frumvarpið nemur, hnigur að því að gera ýmsum félögum kost á að leggja reikninga sína undir löggilta endurskoðendur.

Svo fór, þótt frumvarpið sé stutt, að nefndin klofnaði í tvent. Minni hlutinn vill skylda félögin til að nota endurskoðendur, vill láta skifta landinu í umdæmi og gera lögin þegar almenn.

Meiri hlutinn aftur á móti telur það gagnlegt að fá lögskipaða endurskoðendur, en telur að framan af verði ekki alstaðar völ á svo mörgum mönnum, er fullnægi þeim skilyrðum, sem stjórnararráðið mun setja, svo að ekki sé kleift að lögbjóða þetta um land alt. Það má gera ráð fyrir því sumstaðar, að sækja þurfi til endurskoðanda langt að, og gæti það orðið smáum félögum ærið tilfinnanlegur kostnaður Þess vegna vill meiri hlutinn láta þetta að eins vera heimildarlög. Skilyrði fyrir því, að maður geti orðið endurskoðandi, eru í 2. gr., eftir breyt.till. meiri hluta nefndarinnar, þau, að hann hafi náð lögaldri, sé fullráði fjár síns og hafi óflekkað mannorð. Ennfremur vill meiri hlutinn, að það skilyrði sé sett, að stjórnarráðið eða nefnd manna, er stjórnin skipar, úrskurði, hvort maðurinn sé fær um starfið.

Nefndin vili láta það vera frjálst fyrst í stað, hvort lögin séu notuð, vill ekki leggja mönnum þá skyldu á herðar. En það er víst, að þeim mun skjótt fjölga, er nota lögskipaða endurskoðendur, því að skýrslur slíkra manna um fjárhag eru ætíð talin in mesta trygging í viðskiftum öllum. Þegar stundir líða fram, mun verða orðin völ á svo mörgum mönnum til þessa starfs víðsvegar um land alt, að lögbjóða má, að öll félög noti endurskoðendur.

Eg skal taka það fram, að enginn þarf að kveinka sér við að greiða atkv. með þessu frv. af ótta við það, að endurskoðendur þessir fái nokkur laun úr landssjóði; þaðan fá þeir ekki 1 eyri. Enginn verður skipaður til starfsins, sá er ekki sækir um það.

Einnig fer meiri hlutinn fram á það, að dómstólar skuli, þegar þeir þurfi á efnislegri endurskoður. (kritisk Revision) að halda, nota lögskipaða endurskoðendur, ef til þeirra næst.

Þá er stjórninni í 6. gr. falið nánara að ákveða verksvið þeirra.

Breyt.till. nefndarinnar eru ekki annað en orðabreytingar og ágreiningurinn er, eins og eg hefi sagt, ekki annar en sá, hvort skylt skuli að útnefna svo og svo marga menn og óheimilt skuli, þegar frá byrjun, að nota aðra endurskoðendur.

Háttv. minni hluti hefir látið það í ljósi, að falli hans tillögur, muni hann samþykkja tillögur meiri hlutans.

Eg hefi nú skýrt frá áliti beggja aðilja á þessu máli og vænti að það fái góðan byr hér í deildinni.