02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í C-deild Alþingistíðinda. (1338)

88. mál, lögskipaðir endurskoðendur

Frams.m. meiri hlutans (Jón Ólafsson):

Herra forseti ! Eg get tekið undir það með háttv. þm. Dal. (B.J.), að frumvarp meiri hlutans er öll nefndin samdóma um. Ágreiningurinn er að eins um þessa viðaukutill., hvort gera skuli mönnum að skyldu þegar í byrjun að nota þessa lögskipuðu endurskoðendur eina.

Mér heyrðist það í nefndinni á háttv. þm. Dal. að hann hugsaði sér, að landinu yrði í byrjun skift í 4 umdæmi með einum endurskoðanda í hverju. Ef á að gera öllum félögum, sem nefnd eru í frumvarpinu, að skyldu að nota einn endurskoðanda, og engan annan en einhvern inna lögskipuðu, þá er eg hræddur um að það yrði mörgum talsvert kostnaðarsamt og erfitt að ná í einhvern þeirra og sumum jafnvel um megn. Það yrði ekki lítill kostnaðarbaggi á smáfélög, sem ekki hafa meiri viðskiftaveltu um árið en 2–500 kr., að þurfa að kosta mann til þessa starfa, sem sóttur væri mjög langt að. Það gæti alveg gleypt félögin. Sama máli gegnir um ýmsa smásjóði, sem stofnaðir eru í guðsþakkarkyni, en ekki hafa miklu fé yfir að ráða.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Dal. var að tala um, að nauðsynlegt væri, að skylda menn til að nota þá lögskipuðu endurskoðendur eina til þess að koma í veg fyrir að »Svindel«-félög gætu sýnt skakka reikninga, þá vil eg geta þess, að ekki er svo mikil hætta á því, sakir þess, að þeir menn, sem lána slíkum félögum peninga, munu sjálfir sjá svo um, að endurskoðunin sé svo trygg, að hún sýni ljóslega hag félagsins. Annars mega þeir Sjálfum sér um kenna.

Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vænti að málið fái góðar undirtektir.