02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í C-deild Alþingistíðinda. (1346)

106. mál, lánsdeild við Fiskveiðasjóð Íslands

Framsm. (Kristinn Daníelsson):

Þessu máli var vísað til sjávarútvegsnefndarinnar og eins og nefndarálitið ber með sér, félst nefndin á að ráða háttv. deild til að samþykkja frv. með þeirri brt., sem fyrir liggur.

Mönnum er það kunnugt, að með lögum 1907 var stofnuð lánsdeild við Fiskiveiðasjóð Íslands. Þessi lánsdeild átti ekki að starfa nema 5 ár, nema lögin yrðu endurnýjuð, og var mælt svo fyrir, að það skyldi gert 1913. Nú hefir lánadeildin ekki tekið til starfa og skilyrði til að gera lög þar að lútandi eru ekki fyrir hendi. Það er því engin reynsla fengin í þessu efni og verður að fresta endurskoðun laganna og lengja jafnframt heimildina til að lánsdeildin megi lána út, og að því stefnir þetta frumv. Nefndinni kom saman um, að það væri in mesta nauðsyn á að þetta gæti komið til framkvæmdar sem allra fyrst, þar sem stofnun slíkrar lánsdeildar myndi verða til mikillar lyftingar fyrir sjávarútveginn. Eins og bent er á í nefndarálitinu, eru líkur til að sala bréfanna muni takast. Nefndinni datt í hug að koma með þingsályktunartillögu í þessu efni, en hætti þó við það og lét sitja við þau ummæli, sem í nefndarálitinu eru um þetta, og undirstryka þau frekara í umræðum, sem eg hér með leyfi mér að gera.

Eg skal svo ekki fara frekari orðum um þetta mál að sinni, en leyfi mér í nafni nefndarinnar, að ráða háttv. deild til að samþykkja frumvarpið með þeirri breytingu, sem breyt.till. á þgskj. 378 felur í sér.