03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í C-deild Alþingistíðinda. (1348)

57. mál, girðingar

Frams.m. (Sigurður Sigurðsson):

Efri deild hefir gert nokkrar breytingar á þessu frumv. En í framhaldsnefndaráliti landbúnaðarnefndarinnar er gerð grein fyrir þessum breytingum, svo eg ætla að það sé óþarft að endurtaka það sem þar stendur (þgskj. 642). Þó get eg ekki leitt hjá mér, að minnast á nokkrar breytingar, er máli skifta, og skal eg þá fyrst minnast á breytinguna við 8. gr. Það hafði verið svo ákveðið í frumv., þegar það fór héðan úr deildinni, að girðingarskyldan kæmi þá að eins til greina, er tún og engjar fleiri jarða lægju saman. En efri deild hefir nú bætt inn því ákvæði, að girðingarskyldan skuli einnig ná til þess; er tún og engjar jarða liggja að beitilandi annarar jarðar. Þessi breyting gengur í þá átt, að færa ákvæði 8. gr. nær því sem upphaflega var til ætlast, þegar frumv. var flutt hér inn í deildina. Eg get því eðlilega fallist á þessa breytingu, og skal um leið lýsa yfir því fyrir hönd nefndarinnar, að hún mun sætta sig við orðinn hlut í þessu efni. Önnur veruleg breyting, sem efri deild hefir gert á frumv., er um það, hvert sækja skuli um leyfi þegar um það er að ræða, að girða fyrir veg og setja hlið á fyrir veginum með grind í hliðinu. Girðingalögin ákveða um þetta, eins og kunnugt er, að leita skuli leyfis landsstjórnarinnar, þegar um flutningabrautir, þjóðvegi eða fjallvegi er að ræða, en leyfis sýslunefnda, þegar um hreppsvegi eða sýsluvegi er að ræða. Við umræðurnar í neðri deild voru talavert skiftar skoðanir um þetta atriði. Nokkrir voru á því, að ekki ætti að þurfa að sækja um leyfi til neinna stjórnarvalda, en niðurstaðan varð sú, að frv. var í þessu efni algerlega í samræmi við vegalögin, þegar það fór héðan til efri deildar. Nú hefir efri deild farið meðalveginn í þessu, og ákveðið, að að eins skuli leita leyfis sýslunefnda, þegar um flutningabrautir er að ræða. Efri deild leit svo á, að þetta kæmi mest við sýslunefndunum, þar sem viðhald flutningabrauta er lagt á sýslusjóðina, og væri því ekki áríðandi að láta stjórnina fjalla um þau mál. Nefndin getur sætt sig við greinina, eina og hún er nú orðin í frumv.

Þá er í þriðja lagi bætt inn í frumv. grein, sem verður 12. gr., og ræðir um stórgripagirðingar með einum eða tveimur gaddavírsstrengjum. Þar er ákveðið, að eigandi slíkrar stórrgipagirðingar skuli sæta sektum og greiða skaðabætur, ef fénaður meiðist fyrir það að girðingin er í ólagi eða vanhirðu. En nefndin lítur svo á, sem það sé réttur skilningur á greininni, að þessi ákvæði um sektir og skaðabætur eigi einungis við að því er snertir stórgripagirðingar með einum streng eða tveimur.

Aðrar breytingar, sem efri deild hefir gert á frumv., skifta ekki máli. Nefndin álítur, að þessar breytingar séu ekki til verulegra bóta, en vill hins vegar ekki eiga í að koma með nýjar brtill., og leggur því til, að frumv. verði samþykt eins og það nú liggur fyrir.