03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í C-deild Alþingistíðinda. (1352)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Framsögum. (Stetán Stefánsson):

Háttv. þingm. Dal. (B. J.) gerði ekki mikið úr umkvörtunum Eyfirðinga yfir hringnóta veiðiskapnum. Sagði hann, að það hefðu ekki verið nema einn eða tveir bændur, sem hefðu kvartað yfir aflaleysi vegna hringnótaveiðanna. En svo er heldur ekki. Get eg því til sönnunar skírskotað til þingmálafundargerða í Eyjafirði um þetta mál.

Treysti eg því, að háttv. þingdeild trúi því betur, en því sem þingmaðurinn kann að segja um það hér í deildinni.

Hér er því ekki um einn eða tvo bændur að ræða, heldur undantekningarlaust hvern einasta bónda í þeim héruðum — nema þótt eg geti ef til vili undanskilið, einn einasta mann — sem óska þess, að bönnuð verði herpinótaveiði inni á Eyjafirði.

Hér er líka að eins farið fram á að veiðin verði bönnuð 5 ára tíma, en verði hina vegar engin breyting á með netasíldveiðar á þeim tíma, þá leikur enginn vafi á því, að þessi samþykt verður ekki endurnýjuð, og því er ekki á neinn hátt miklu spilt, þótt þetta frumv. fái fram að ganga.

Það hefir verið talað um það, hvers vegna menn kærðu sig um að veiða á þessum sviðum. En það er ofboð eðlilegt, að menn vilji veiða þar, því menn vilja auðvitað helzt fara þangað sem styzt er. En þótt því sé nú slept, þá finst mér ekki rétt að gera meira úr lítilli kolaeyðslu; meta hana meira en almennings hag af veiðiskapnum.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) var að minnast á það að herpinótaveiðimennirnir hefðu gætt landhelginnar fyrir útlendum botnvörpungum. En því höfum við aldrei haft neitt á móti og þessir menn geta gætt hennar alveg eins eftir sem áður, því það er afar stórt svæði, sem þessir menn geta veitt á og gætt landhelginnar, á öllum Eyjafirði fyrir utan Hrísey, og yrði því það svæði enn betur varið en áður. Þessi landhelgisgæzla yrði því að engu leyti verri þótt þetta frumv. fengi fram að ganga.

Annars er ekki til neins að vera að tala um þetta frekara eða vera að yrðast altaf um sama hlutinn, einkanlega er það óþarft, þegar engin br.till. hefir komið fram við frumvarpið.