03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í C-deild Alþingistíðinda. (1358)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Ráðherrann (H. H.):

Eg vil að eina leyfa mér að gera þá athugasemd, að þetta frumvarp er í fullu samræmi við gildandi lög um fiskiveiðasamþyktir. Munurinn er að eins sá, að hér er um dekkskip að ræða, sem veiðin er stunduð frá — að vísu með opnum bátum. Ef veiðin væri algerlega stunduð af opnum bátum, þá þyrfti ekki þessi lög. Og það væri misrétti að synja Eyfirðingum um lagaheimild til þess að gera slíkar samþyktir, fyrst gildandi lög yfirleitt veita heimild til þess að útiloka viss veiðarfæri á tilteknum svæðum, þegar um opna báta er að ræða.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L.H.B.) sagði að það væri ekki rétt gert að útiloka marga frá veiðunum á þessu svæði vegna fárra manna. Eg hygg að réttara væri að snúa þessu við og segja, að það væri ekki rétt að útiloka þá mörgu, sem við fjörðinn búa, frá síldveiðum, vegna þeirra fáu aðkomumanna er þangað kynnu að vilja sækja með veiðarfæri, sem hinir eru fulltrúa um að gerspilli fyrir sér þeirri veiði, sem þeir eru færir um að stunda. Að samþyktin mundi ekki snerta nema einn hrepp, getur hátt þm. ekki hafa heyrt neinn kunnugan mann segja. Það er alt svæðið fyrir innan Hrísey beggja megin fjarðar, sem hlut á að máli. En þeir sem senda héðan botnvörpuskip til veiða á því svæði, eru ekki nema örfáir, og gætu alveg eins vel sent þau á aðra staði. Það er ekki ástæða til þess fyrir löggjafarvaldið, að takameira tillit til þeirra, heldur en íbúa heilla bygðarlaga, að þeir geti notið þeirra gæða, sem náttúran hefir veitt þeim til uppeldis og atvinnu. Annars er ekkert hægt um það að segja, hvort þessi samþykt kemst einu sinni á þegar til kemur, því að á Akureyri eru margir því mótfallnir. Því síður skal eg um hitt dæma, hvort síldargangan inn á fjörðinn ykist, svo að venjuleg netjaveiði gæti aftur komið þar að gagni, þó herpinótaveiðin hætti á þessum stöðum, en kost ættu héraðamenn að eiga á að gera tilraun, ef meiri hluti þeirra trúir á þetta og getur komið samþykt fram.