03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í C-deild Alþingistíðinda. (1359)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að eins að gera stutta athugasemd, því að eg vil ekki endurtaka það sem þegar er sagt. En hvað sem sagt er um þekkingu eða vanþekkingu á þessu máli, þá ætti enginn, sem nokkurn tíma hefir hefir séð skepnu úr sjó, að geta verið í efa um það, að þetta bann er til skaða skipum, sem hingað til hafa stundað þarna veiðiskap, og að sönnunarskyldan hvílir á þeim, sem þann skaða vilja vinna. Og mig og aðra vantar enn sönnun fyrir því, að rétt sé að útiloka þessi skip frá veiðinni, af því að þau stunda hana með herpinót. Í raun og veru er þetta líka nokkuð hjákátlegt, því að hvernig stendur á því, ef það er rétt, að síldin hrökkvi undan þessum veiðum út á haf, að hún skuli þá aldrei hrökkva undan þeim inn á fjörð, þegar þau eru á veiðum úti í fjarðarmynninu? Eða þá aldrei komast lengra en í fjarðarmynnið ?

Eins og eg sagði, er það alveg ljóst, að með þessu banni er hagnaði spilt fyrir sumum mönnum. Það hefir nú verið borið fyrir, að þeir menn séu fáir. En það er ekki rétt. Þeir eru fjöldi manns. Menn verða að muna eftir því, að það eru ekki einungis eigendur skipanna, heldur og allir þeir sem á skipunum vinna, og ekki einungis þeir, heldur allar fjölskyldur þeirra, og allir sem eitthvað eiga undir atvinnu þeirra. Og ætli þeir slagi ekki nokkuð upp í tölu þeirra manna, sem hafa atvinnu af sjó innan Hríseyjar. Annars er það alveg rangt, að vera að metast um þetta alt saman, því að sjórinn á að vera öllum landamönnum jafn heimill. Og þó að þetta frv. væri engum til ama sérstaklega, þá myndi eg samt vera á móti því, af því að slíkt á ekki að komaat inn í löggjöfina. Og þótt hæstv. ráðh. segi að til séu önnur samskonar lög, þá bætir það ekkert úr skák. Þau lög ætti þá sem fyrst að fella úr gildi, því að þau eru höft á atvinnufrelsi manna, sem eru blátt áfram ósæmileg, og verða ekki varin.