03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í C-deild Alþingistíðinda. (1360)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Lárus H. Bjarnason:

Hæstv. ráðherra sagði að eg gæti ekki haft það eftir kunnugum manni að frumvarpið væri nánast fyrir einn hrepp. Eg ræð honum til þess, að fara til háttv. 2. þm. Eyf. (H. H.) og spyrja hann, því að hann hefi eg heyrt segja þetta. Eg heyri að hæstv. ráðh. segir: »Ósannindi« í lágum hljóðum, en eg er steinhættur að furða mig á því, þó að hann muni ekki það sem hann hefir sagt, eða skifti um skoðanir. Eg veit að þetta er satt og hann má vita, að það er satt og það er mér nóg.

Hann sagði líka, hæstv. ráðherra, að þetta væri í samræmi við gildandi lög. Eg ætla ekki að eyða orðum við hann út af þessu, en skal að eins með leyfi hæstv. forseta lesa upp fyrir hann 1. gr. laganna, sem hann líklega átti við, lög frá 19, Júní 1888 um bátfiski á fjörðum. Þar segir svo:

»Rétt er að útilykja aðkomandi fiskimenn frá bátfiski, nema síldveiðar sé, á fjörðum, eða tilteknum fjarðasvæðum, Sökum fiskiveiða fjarðarbúa o.s.frv.«

(Ráðherrann: Eg átti ekki við þessi lög). Það er hægt fyrir ráðherra að segja að það hafi ekki verið þessi lög, sem hann átti Við, því að eg verð dauður. þegar hann tekur til mála næst. Hann getur þá vitanlega nefnt önnur lög út í bláinn, en þetta eru einu lögin sem við eiga, og því gat eg þess til að hann mundi hafa átt við þau, en misskilið þau eða mismunað svo sem fyrir kemur.

Það stendur fast, sem eg hefi sagt, að þessi lög myndu verða til mikils hnekkis fyrir botnvörpuútgerð héðan og víðar að, en er aftur á móti ósannað að þau verði til nokkurra verulegra nota fyrir héraðið, sem hlut á að máli.