03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í C-deild Alþingistíðinda. (1361)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Ráðherrann (H. H.):

Það er ekki í fyrsta sinni sem þessi háttv. þm. hefir eftir mér orð, sem mér hefir aldrei dottið í hug að tala; hann hefir lengi haft þann sið. Hann hefir jafnvel þessar síðustu vikur verið svo ófeiminn, að hafa eftir mér á prenti í »Reykjavíkinni« slag í slag hitt og þetta, sem eg hefi aldrei talað, og rangfæra svo orð mín og athafnir, að ekki er heil brú í neinu. (Lárus H. Bjarnason: Framvegis verð eg að fara að hafa votta við). Eg segi þetta hér til þess, að ef einhver kynni seinna meir vilja taka mark á þessum skrifum hans, þá skuli menn muna, að eg mótmæli trúverðugleika þeirra í flestöllum greinum. Öðruvísi nenni eg ekki að svara þeirri sagnfræði hans.

Eg er ekki svo ókunnugur í Eyjafirði ennþá, að eg viti það ekki, að bæði Arnarness- og Glæsibæjarhreppar liggja að þessu svæði, Eyjafjarðarsýslumegin, og auk þess Svalbarðastrandar- og Grýtubakkahreppur austan megin fjarðarins. Og eg skil ekki, hvað háttv. þm. getur gengið til þess, að hafa aðra eins fjarstæðu eftir mér, eins og þetta, að samþyktin mundi að eina snerta einn, hrepp, nema þessi veiki, sem hann virðist þjást af, þessi ástriða til þess að herma upp á menn og hafa eftir mönnum það sem honum býður við að horfa.

Það var algerður misskilningur hjá háttv. þm., að eg ætti við lögin um bátfiski á fjörðum, þegar eg sagði að heimildarlög til samþykta um þetta efni væri í samræmi við gildandi lög. Tilvitnun sú og lagagreinin sem hann las upp kemur þessu máli alls ekkert við, og var fjarri mínum huga. Eg átti auðvitað við hina almennu heimild til fiskiveiðasamþykta, sem gefin er í lögum frá 14. Des. 1877, og sagði, að ef hér væri um opin skip að ræða, þá kæmust þessar samþyktir undir þau lög. Að bera það upp á mig að eg hafi átt við lögin um bátfiski á fjörðum, það er auðvit í samræmi við annað, sem honum þóknast að leggja mér í hug og munn.