03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í C-deild Alþingistíðinda. (1369)

128. mál, friðun fugla og eggja

Pétur Jónsson:

Eg ætla ekki að láta mikið til min taka í þessu máli, en eg vildi þó minnast fám orðum á rjúpurnar. Það vill nú svo til, að eg býst við að hvergi á landinu sé meira um rjúpu en einmitt í mínu héraði, jafnvel í minni eigin landareign. Eftir frumv. Ed. eiga rjúpurnar að vera alfriðaðar 7. hvert ár. En þessu vill nefndin breyta í 5. hvert ár. Sú fjölgun friðunarára þykir mér um of. Þess vegna vildi eg óska að háttv. nefnd vildi taka aftur tillögu sína um þetta og hallast að minni. Eg hefi kynt mér hverjar ástæður eru til friðunarinnar, og eg veit það vel, að rjúpur geta bæði fallið í harðindum og svo fyrir skotum nokkuð, en það þarf ekki nema eitt gott ár með alllöngu millibili til þess að þeim fjölgi aftur að sama skapi.