03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í C-deild Alþingistíðinda. (1380)

105. mál, jarðirnir Bústaðir og Skildingarnes lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Kristján Jónsson:

Um þetta, sem háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D) síðast talaði og lagði til málsins, get eg alls ekkert sagt.

Af bæjarins hálfu er ekki farið fram á annað en að þessi býli, sem liggja inni í landi bæjarins verði lögð yndir lögsagnarumdæmi hans. Hitt er mér ókunnugt, hvort bæjarstjórnin mundi vilja óska þess að allur Seltjarnarnesshreppur eða allur vesturhluti hans yrði lagður undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, og get því enga tillögu um það gert.

Eg heyrði, að háttv. 1. þm. S. Múl. (J.Ól.) var að tala um ósanngirni og ásælni. Get eg ekki séð, við hvað hann hefir átt; en það er auðséð að einhver hefir lagt honum þessi orð í munn. Það hefir verið glöggt og greinilega skýrt frá ástæðunum til þess, að bærinn óskar eftri þessu, og fullar bætur eiga að koma fyrir skerðinguna. Um ágang, ásælni, ósanngirni er eigi að ræða.

Síðan um aldamótin hefir þetta mál verið vakandi í bæjarstjórninni, kunnugt bæjarbúum, og kunnugt Seltirningum frá öllum hliðum.

Um þetta stóra hafnargerðafélag er það að segja, að ég veit ekki betur en að það sé nú alveg sofnað; getur verið að það vakni aftur. Mér er ennfremur kunnugt um að af því fé, sem átti að vera borgað Skildinganesaeigendum fyrir Júlíbyrjun, er ekki einn eyrir borgaður enn þá.

Það hefir verið talað um að inn sterki eigi ekki að níðast á hinum veikari. En hver er sá sterki í þessu máli? Eg get ekki betur séð en að sá, sem háttv. 2. þm. G.K. (Kr. D.) sagði að væri sá veikari, sé einmitt inn sterki í þessu máli, að minsta kosti á þessu þingi.

Mér virðist, hvernig sem litið er á málið, að sjálfsagt sé, að láta það komast til 3. umr.

Háttvirtir flutningsmenn frumvarpsins munu þá taka til íhugunar, hvort ekki sé rétt að mæta andstæðingum frumv. á miðri leið og láta það ná til Bústaða eingöngu, en taka Skildinganes undan ákvæðum þess.

— Enn vil eg til frekari skýringar taka það fram, að þegar eg var í fátækranefnd Reykjavíkur, þá var það fullkunnugt, að þessir bæir voru notaðir af hreppnum eina og nýlenda til þess að skjóta þaðan þurfalingum inni í Reykjavík og var það vitanlega til óhagræðis fyrir bæinn. — Ef jarðirnar nú væru lagðar undir lögsagnarumdæmi hans, þá mundi hann að sjálfsögðu láta gera góðan veg suður að Skildinganesi og bötnuðu þá mikið samgöngur við Álftanes.

Mér er þetta sjálfum persónulega ekki kappsmál; eg sit ekki í bæjarstjórninni. Eg er að eins í þingnefndinni, hefi athugað málið þar, og sé ekki ástæðu til annars, en að frumvarpið verði samþykt. Eg veit að þetta mál mun koma fyrir hvert þingið eftir annað, ef það verður ekki samþykt nú, unz það að lokum vinst.

Þetta er venja í öllum borgum heimsins, að þær leggja undir sig þá staði, sem nálægir eru, eða umhverfið. Þetta lögmál mun verða að gilda hér líkt og t. d. í Kaupmannahöfn. Það getur sessunautur minn, háttv. þm. Sfjk. (V. G.) borið um, að Kaupmannahöfn gleypti fyrir nokkrum árum alt umhverfi sitt með húð og hári. Eg vona að háttv. deild líti á þetta mál með sanngirni. Ef hreppurinn hefði getað eða viljað fallast á breytinguna, þá hefði ekkert orð þurft að segja um málið. En úr því að samþykki hreppsins ekki hefir getað fengist, þá verður að sýna, að mótstaða hans er á röngum rökum bygð, og það hefi eg leitast við að gera.