09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (139)

21. mál, íslenskur sérfáni

Pétur Jónsson:

Háttv. flutningamaður, sem hélt mjög skýra og skörulega ræðu til framsögu þessa mála, hélt því fram í henni, að það ætti að standa ofar öllum flokkum. En í síðari ræðu sinni taldi hann þó á fingrum sér raddir flokkanna, eins og engar skoðanir né tilfinningar gætu verið til, nema skoðanir og tilfinningar flokkanna. Það ber víst að skilja svo, að háttv. flutningsm. telji sig ofar flokkunum í þessu máli, en hafi hins vegar ekki svo mikið traust á öðrum mönnum, að þeir geti áttað sig á því nema í flokkum.

Hann saknaði þess t.d., að bændaflokkurinn hefði ekki látið til sín heyra. Eg ímynda mér, að bændur muni ekki flana að því, að ræða þetta mál. Bændaflokkurinn getur enga sérstaka rödd látið til sín heyra, því að hann hefir enga sérstaka afstöðu tekið í því, aðra en þá að kjósa nefnd. Þetta get eg sagt fyrir hönd bændaflokksins, þó að eg hafi ekki verið kosinn neinn málsvari hans, hvorki í þessu máli né öðru.

Eg get sagt fyrir mitt leyti, að á mér hefir það ekki sannast, að nokkrir fánalitir hafi brent sig inn í mig, enda var eg ekki hér 12. Júní. Síðan eg man eftir mér, hefir mér ávalt verið fremur lítið um Dannebrog. Það er að vísu fallegt flagg, en við það loða þó þær endurminningar, að mér getur seint orðið vel við það. Sama er að segja um stúdentaflaggið. Það er líka fallegt flagg, en þó eru tengdar við það fremur leiðinlegar endurminningar. (Bjarni Jónsson: Það er skrítið). Fánamálið hefir verið notað eins og margt fleira, sem í sjálfu sér er gott, til eiturbyrlunar með þjóðinni til þess að koma af stað æsingum, góðum málum til skaða. (Bjarni Jónsson: Hvaða mál voru það ?). Það skilja allir, þó að eg segi ekki meira.

Eg ætla mér ekki að skýra frá því, hvernig eg muni haga mér gagnvart þessu frumvarpi. Að eins skal eg geta þess, að mér þykir viðkunnanlegri aðferðin, sem háttv. þm. Ak. stakk upp á, heldur en að þröngva upp á menn merki félags hér í Reykjavík, sem engin trygging er fyrir að fólk vilji hafa.