03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í C-deild Alþingistíðinda. (1395)

31. mál, mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundum líkum

Halldór Steinsson:

Eg þarf ekki að segja margt um þetta frumv. Það er öllum vitanlegt, hve mannskaðar hér á landi eru tíðir og mikil nauðsyn ber að reyna að draga úr þeim sem hægt er. En fyrsta ráðið til þess er að komast fyrir orsökina til þeirra. Í því skyni er þetta frumv. borið fram. Það fer fram á að lögleiða, að nákvæmar skýrslur séu gefnar um alla mannskaða og orsakir til þeirra. Sýslumönnum og hreppstjórum er með því falið þetta starf og skulu þeir rannsaka nákvæmlega, hvað slysunum valdi. Áður höfðu prestar þetta starf með höndum, en skýrslur þeirra voru óábyggilegar — slysatalan mikið minni en í raun og veru átti sér stað. Ef þetta frumv. verður samþykt, eru þar með settar nákvæmar reglur fyrir rannsókn á mannsköðum og má telja víst, að sárfáar slysfarir koma fyrir, sem mönnum verði ekki kunnugt um.

Nefndin hefir athugað frv. nákvæmlega og ekki séð ástæðu til að koma með neina breytingu á því, enda er málið vendilega rannsakað áður. Leggur hún því til, að frumv. verði samþykt óbreytt.