03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í C-deild Alþingistíðinda. (1397)

111. mál, strönduð skip

Framsögum. (Þorleifur Jónsson):

Skal fyrst geta þess, að eg ber þetta mál hér fram samkv. óskum, er kom fram á þingmálafundum í kjördæmi mínu. Sérstaklega kom sú ósk frá Öræfingum.

Eins og mörgum mun kunnugt, líður varla ár, svo að ekki strandi fleiri eða færri skip á fjörunum í Skaftafellssýslunum báðum. Í Austur-Skaftafellssýslu stranda skipin einkum á fjörunum fyrir austan og Vestan Ingólfshöfða, c: á Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi. Í Vestursýslunni munu skip einkanlega stranda á Meðallandssöndum.

Það er einkum síðan að útlendingar fóru að stunda botnvörpuveiðar hér við land að vetrarlagi, að strönd hafa verið svo tíð. Úti fyrir strandlengjunni í Skaftafellsýslunum, er oftast fjöldi af útlendum botnvörpungum við veiðar; munu það vera einkum enskir og þýzkir botnvörpungar, eða að minsta kosti eru það þeirra þjóða skip, sem helzt hefir borist þar á.

Áður fyrri var það venjan, að in strönduðu skip voru seld á uppboði, samkvæmt hinum íslenzku strandlögum. En í seinni tíð, eða síðasta áratug, hafa skipstjórar tekið upp þá aðferð, að fá einungis aðstoð yfirvaldsins til að fá strandmennina flutta, en hafa ekki viljað láta selja ströndin á uppboði, eða á annan hátt. Stundum getur þetta verið eðlileg ráðstöfun í bili, ef skipið er heilt og von geti verið að það náist út aftur. En þótt skipin hafi komið upp á fjörurnar stráheil, og staðið teinrétt í sandinum um um stund, veit eg engin dæmi til — því miður — að þau hafi náðst út aftur, þótt það hafi verið reynt. Enda er Ægir gamli svo þunghendur þar um slóðir, að hann mun oftast vera búinn að vinna eitthvað slig á skipunum, þegar fram á sumar kemur og tiltækilegt er að ná þeim út.

Eins og gefur að skilja hefir enginn neitt á móti því, að strandeigendum sé gefinn nægilegur frestur til að gera tilraunir til að ná út skipum ef viðlit er, og þótt skipin séu seld á uppboði, má gera það með þeim fyrirvara, að salan nái ekki gildi að fullu fyr en eftir 6 mánuði eða svo.

Því miður hefi eg ekki í höndum skýrslu um það, hve margir skipsskrokkar liggja á víð og dreif um fjörurnar í Skaftafellssýslunum, óseld og í algerðu greinaleysi. En eg hygg, að þeir séu milli 10 og 20, og geta verið fleiri.

Menn kunna nú að hugsa og jafnvel spyrja: Hví er mönnum ant um, að þessir strönduðu skipsskrokkar séu seldir, og hví mega eigendur þeirra, eða umráðamenn, eigi láta þau liggja þar sem þeim þóknast, lofa þeim að brotna niður; og verða að engu með tíð og tíma. — Til þessa má svara því, að fyrst og fremst er það eðlilegt og rétt, að alt fémætt, sem á landi liggur, ætti að verða einhverjum að notum, náttúrlega gegn borgun. Það er ansi hart að sjá upp á það, að sjórinn mölvi skipin í sundur og dreifi kolum og öðru fémætu, sem í þeim er um sandinn og grafi það niður, án þess að nokkur maður hérlendur megi snerta hendi við þessu.

Þá er að geta þess, að útlendingarnir eiga ekki það land, þá fjöru, sem skipsskrokkarnir liggja á. Fjörur þær er ströndin liggja á, eiga annaðhvort einstakir menn innlendir eða landssjóður, þær heyra með öðrum orðum til einhverra jarðeigna. Nú finst mér að minsta kosti álitamál, hvort landeigandi eða rekamaður er skyldur til að láta annara eigur liggja á landi sínu, endurgjaldslaust, og án þess að um það sé spurt, svo og svo lengi, árum og áratugum saman, eða jafnvel til eilífðar.

Í íslenzkum lögum er ákvæði, sem mér finst dálítið hliðstætt þessu. Það er í lögum um ábúð og úttekt jarða frá 12. Jan. 1884. Þar segir svo í 8. gr.

»Rétt er að fráfarandi skilji eftir, þar sem viðtakanda eigi er mein að, í það af búslóð sinni, er hann eigi má burt flytja þegar, en það skal hann hafa burt flutt, fyrir næstu veturnætur. Séu búsmunir eigi fluttir burtu að veturnóttum, skal búandi segja hreppstjóra til, og fer hann með þá sem fé í vanhirðingu«.

Þarna er íslenzkum mönnum, íslenzkum bændum bannað að láta eigur sinar liggja lengur en 5 mánuði á annars lóð, en útlendingar mega láta skipbrot sín liggja á rekum landsins um aldur og ævi. Menn kunna nú að spyrja, hvaða skaða gerir það rekamanni, þótt rekald liggi hingað og þangað á rekum hans. En eins má spyrja: Hvaða skaða gerir það ábúanda þótt spítur eða aðrir búsmunir fráfaranda liggi einhversstaðar á aurmel, eða grjótholti í landi jarðarinnar. En lögin hafa viljað setja þá reglu, að enginn þyrfti að líða annara eigur á sinni lóð, en einhvern tiltekinn tíma. Og taka jafnframt fyrir það, að menn geti látið dót sitt vera í greinarleysi hingað og þangað. Og svo getur það komið fyrir að beinn bagi geti hlotist af slíkum reköldum á fjörum. Setjum svo að stórt skip ræki upp í litla bátavör, og hvergi væri annað að flýja, með útræði eða lendingu. Þá á að mega láta hræið liggja þar lon og don, og máske eyðileggja sjósókn í heilli sveit. Eg tek þetta sem dæmi, því þótt varir séu óvíða svo litlar, að eitt skip geti eyðilagt aðgang að þeim, þá geta fleiri rekið upp hvort hjá öðru, og það er einmitt lenzkan hjá þeim, ef þeir sjá land, og í óefni er komið, að reyna að stýra þangað eða þar sem næst, er standað skip er fyrir, því þar halda þeir að landtaka sé betri.

En þótt gengið væri að því vísu, að það gerði engum neinn beinan skaða, að skip lægi á fjörum svo og svo lengi, þá er þó hins að gæta, að líta má svo á, að fjörumaður, eða landeigandi, beri nærri siðferðislega ábyrgð á því, að annara eigur, sem í hans landareign eru fari ekki forgöðum, þannig, að þeim sé ruplað eða rænt. Lagaskylda mun að vísu ekki á honum hvíla að þessu leyti. En alt ber að sama brunni: Komi eitthvað fyrir, hendi það að eitthvað hverfi af slíku dóti, hvert mun þá gruninum oftast beint? Mun ekki grunsemdin falla oftast á fjörumann, af því að hann á oftast leið þar um. Og margt getur ilt hlotist af þessu reiðileysi; hvörf og málaferli, eina og dæmin hafa stundum sýnt. Og þó getur verið um hvörf að ræða úr þessum skipaakrokkum, án þess að hérlendir menn séu að því valdir. — Mikilsmetinn maður í öræfum og áreiðanlegur, sagði mér frá atviki, sem sýnir að svo geti verið.

Botnvörpungurinn hafði strandað út af Fagurhólsmýri í öæfum, skipstjóri vildi eigi láta selja skipið. Það var heilt og atóð teinrétt í sandinum. Var svo káetum og öllum niðurgöngum í skipið læst með járnslám, og minnir mig að bændur á Fagurhólsmýri væði beðnir að líta við og við eftir skipinu. En svo kemur það fyrir löngu, löngu seinna, að frá Fagurhólsmýri sást að skip sigldi þar upp undir land, og lagði bátur frá skipinu og sást að menn fóru í ið strandaða skip. Var svo farið í fjöru til að athuga strandið. En þá höfðu þessir útlendingar mölvað lása og brotist inn í herbergi skipsins, auðvitað í þeim tilgangi að ná munum þaðan. Eg get þessa til sönnunar því, að ekki er alt af víst að gruni sé rétt stefnt, um hvörf þau er kunna að — verða úr skipum þessum, og þar gjaldi ef til vill margur saklaus af. Og í sjálfu sér er ekki rétt, að líða það að fjármunir liggi hingað og þangað í greinarleysi, sem tálsnara og freisting fyrir almenning.

Að öllu þessu athuguðu, held eg að ekki sé óréttmætt, þótt farið sé fram á að eitthvað sé tekið hér í taumana. –Upphaflega var eg að hugsa um að koma með viðauka við strandlögin frá 14. Jan. 1876, í þá átt, að skipaeigendum eða ábyrgðarfélögum væri óheimilað að hafa strönduð skip hér á rekum landsins í greinarleysi lengur en 6 mánuði eða svo. En ef engin ráðstöfun væri gerð að þeim tíma liðnum, skyldu þau annað hvort falla til landssjóðs eða fjörueiganda.

En eftir að eg hafði ráðfært mig við lögfræðinga um þetta atriði, og heyrði það hljóð í þeim, að löggjöf á þessu áviði myndi ærið vandasöm, með því að rannsaka þyrfti erlendar reglur eða alþjóðareglur um þetta, hætti eg við það, en tók til ráðs að fela stjórninni málið með þessari þingsályktunartillögu.

Treysti eg því að hæstvirt stjórn taki málinu vel, og geri gangskör að því, að óreglu, þeirri er hér um ræðir, létti af. — Eg býst við, að til þess þurfi nýtt lagaboð, og vona eg og óska að hún undirbúi slík lög undir næsta Alþingi, eftir að hún hefir aflað sér þeirra upplýsinga, sem með þarf um málið.

Orðlengi svo ekki frekara um þetta mál. Vona að háttvirt deild sýni því þá velvild að samþykkja tillöguna. Hún er engum til meins, en gæti komið í veg fyrir óreglu, sem nú viðgengst.