03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í C-deild Alþingistíðinda. (1399)

109. mál, forðagæsla

Framsögum. (Ólafur Briem):

Það er oft haft í orði að mál vanti nauðsynlegan undirbúning á þinginu. En það verður ekki sagt um þetta frumv. Það styðst við reynslu margra ára. Tilætlunin er, að það komi í stað laga 9. Febr. 1900 um horfelli á skepnum, sem nú í 12 ár hefir átt að framfylgja um land alt. Það hafa komið í ljós verulegir gallar á þessum lögum við reynsluna. Meðal annars er það óheppilegt ákvæði, að þeir menn, sem framkvæma eiga búpeningsskoðanir eftir lögunum frá 1900, eru valdir að eins til eins árs í senn. Og þótt leyfilegt sé að endurkjósa þá, þá eru það fæstir, sem gefa kost á sér til þess, einkum þar sem ekki er fast ákveðin borgun fyrir starfann, heldur fer hún eftir samkomulagi við hreppsnefnd og má ekki fara upp úr 2 krónum á dag. Oft er það því að hreppanefndirnar reyna að spara þessi útgjöld og fá menn fyrir lægra kaup, eða alls ekkert. En þá gefur að skilja, að þá er ekki ætið farið eftir hæfileikum manna. Í þessu frv. er reynt að bæta úr þessu með því, að skoðunarmenn séu valdir til 3. ára í senn og kaup þeirra fastbundið við 2 kr. á dag.

Annar galli á lögunum frá 1900 er sá, að ekki er fyrirskipuð nema ein skoðun á ári, og það á útmánuðum. Afleiðingin af þessu getur verið sú, að í óefni sé komið með skepnurnar þegar skoðunin fer fram. Fóðrið hefir kann ske verið alt of lítið í byrjun þegar á haustnóttum. Hér er farið fram á 2 skoðanir á ári. Þegar svo er, þá geta skoðunarmenn verið í ráðum með bændum, hve mikið þeir skuli setja á, og vilji menn ekki fara að ráðum skoðunarmanna, gefst þeim tilefni til að hafa altaf vakandi augu á þeim búendum.

Þá er enn þriðji gallinn á, lögum sá, að skoðunarmenn hafa ekki aðra skyldu á hendi, ef þeir álíta að ástandið sé ískyggilegt, en að tilkynna það hreppstjóra í þeim tilgangi, að hann kæri málið fyrir sýslumanni. Í því frumv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að forðagæzlumenn ráði þeim manni, sem er tæpt staddur, til að fá birgðir handa skepnum einum, og ef fjáreigandi ekki vill hlíta því, annað hvort að útvega forða eða fækka skepnum sínum, svo að því sé borgið sem eftir lifir, þá fyrst skuli hlutaðeigandi kærður. Með öðrum orðum, hann verður ekki kærður fyr en hann hefir sýnt mótþróa, en ekki fyrir hitt, þótt hann í hugsunarleysi hafi stofnað sér í vandræði.

Þetta eru þá aðalbreytingarnar á gildandi lögum. Þar að auki eru ýmis önnur atriði, sem nefndinni kom saman um að væru til bóta, og leyfir hún sér einhuga að ráða háttv. deild til að samþykkja frumvarpið með þeim breytingum, sem nefndin hefir komið fram með á þgskj. 617.

Fyrsta breyt.-till. nefndarinnar er við 3. gr. Þar er svo ákveðið, að forðagæzlumenn skuli skoða fóðurbirgðir manna, en hér er því bætt við, að þeir skuli einnig skoða húsavíst búpenings, því að það skiftir miklu máli að hún sé í góðu lagi.

Önnur breyt.till. við 5. gr. um, að orðin sem hreppssjóður borgar falli burt, stendur í sambandi við fimtu brt. um sérstök ákvæði um forðagæzlubækur. Nefndin áleit að þessar forðagæzlubækur myndu verða til mikils gagns og fróðleiks í búnaðarsögu landsins þegar fram liðu stundir, og væri því afarþýðingarmikið að þær væru vel færðar og vel geymdar, og virtist nefndinni Landsskjalasafnið vera eini rétti staðurinn til að geyma þær. Og í sambandi við það að þær eiga að vera eign landsins, virðist vera rétt að landssjóður borgi þær. Vitaskuld skiftir það ekki miklu máli, hvort það er landssjóður eða hreppssjóður, sem borgar.

Þriðja br.till. er orðabreyting um, að sleppa úr 6. gr. orðinu »réttlátan«. Þar er talað um, að forðagæzlumenn eigi að gefa vitnisburð um útlit búpenings, og er komist svo að orði, að hann eigi að vera réttlátur. Nefndin áleit að það væri sjálfsagt, svo að ekki þyrfti að taka það fram.

Þá er fjórða breyt.till. orðabreyting, sem stendur í sambandi við að breytt hefir verið um nafn á öðru frumvarpi.

Nefndin býst við að þetta frumvarp, eins og það er úr garði gert, muni ekki sæta miklum andmælum, og álítur það í heild einni mikla réttarbót.