03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í C-deild Alþingistíðinda. (1402)

93. mál, hallærisvarnir

Guðmundur Eggerz:

Eg verð að segja það, að mig stórfurðar á því, hve góðar undirtektir þetta frumv. hefir fengið hjá nefndinni hér í deildinni. Þegar eg sá frumvarpið fyrst, þá sló miklum óhug á mig, því mér virtist það benda til væntanlegs sults og mannfellis. Það er auðséð, að þeir sem eiga þessa hugmynd eða vilja koma henni í framkvæmd, þeir menn eru alveg sannfærðir um það, að á næstu árum muni landið þekjast hordauðum Íslendingum og búfjárræflum. Eg skil ekkert í þeim mönnum, sem ekki hafa meiri trú á framtíð landsins en þetta; að þeir sömu menn skuli þá ekki þegar fara héðan af landi brott og fara til fyrirheitna landsins — Ameríku! Þeir gera það kannske, ef þetta frumvarp verður ekki samþykt.

En svo eg víki nú að frumvarpinu, vil eg fyrst minnast á 1. gr. Þar eru taldar upp 3 tegundir hallæra. Fyrst eru hallæri, sem hljótast af hafis, svo þau, sem hljótast af eldgosum og loks þau, sem hljótast af öðrum stórfeldum orsökum. Svona er nú þessi fallega þrenning. Það er auðséð, að þeim sem hafa búið til þetta merkilega frumvarp, hefir ekki fundist nóg að hafa þessi tvö fyrstu hallæri, af hafís og eldgosum, heldur hafa þeir orðið að bæta 3. hallærinu við, af einhverjum öðrum stórfeldum orsökum. Satt að segja er mér ekki vel ljóst, hvað hér er átt við. (Jón Ólafsson: Landskjálfta t.d.). Nú, landskjálfta. Jæja, annara hélt eg að hér væri ef til vill átt við einhver voðaleg jökulhlaup, sem alt mundi drukna í og þá líka máske þetta hallærisfrumvarp. (Sigurður Sigurðsson: Og 2. þingmaður S.-Múl. líka). Eg vona að guð gefi að 1. þingmaður Árnesinga færi líka með, enda þótt eg játi, að »selskabið« sé ekki með bezta móti.

En nú skal eg þó gera þeim það til geðs þessum hallæriskrákum, að gera, ráð fyrir ekki einungis að hallærissjóðurinn komist á, heldur og hinu, að yfir dynji hallæri.

Setjum svo, að hafís leggist að öllu Norðurlandi, og allar skipaferðir teppist, þá er svo sem ekki öllu borgið með hallærissjóðnum, því enginn étur gull né silfur, þótt í hallærisajóði liggi. Það er hins vegar skylda stjórnarinnar að sjá um að menn deyji ekki úr hungri eða hor, heldur hlaupa undir bagga með mönnum, ef óhöpp ber að. Landssjóðurinn er þannig alveg eins góð hjálparhella eins og hallærissjóðurinn.

Eg vil því ráða þeim háttvirtu herrum til þess að fara heim og læra betur, í stað þess að vera hér að krunka um hallæri, sem enginn veit, hvort nokkurn tíma kemur. Frumvarpið er bygt á hallæri, sem áður hefir komið, móðuharðindunum, en engin ástæða er til að ætla að slíkt geti komið fyrir aftur. Nefndin hefir nú ekki séð sér fært að segja hallærið fyrir, hvenær og hvernig það komi, heldur hefir hún aðallega bygt frumvarp sitt á ritgerð Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal og móðuharðindunum. En þá er þess að gæta, að móðuharðindin voru fyrir rúmum 130 árum og ástæðurnar voru þá alt öðruvís í landinu en nú. Þá komu líka ýmis önnur óhöpp fyrir, fyrst fjárkláði og svo eldgos. Þótt nú hér kæmi annað hvort hafis eða eldgos, þá dettur mér ekki í hug að halda að hér yrði fellir fyrir því. Ef einhver bjargarakortur yrði, þá væri hægt að bæta úr honum, án þess að hafa þennan sjóð, og það er athugandi, að þessi óhöpp gætu ekki komið yfir alt landið, heldur að eins yfir nokkurn hluta þess. Er nokkur sanngirni í því að leggja svo stóran skatt á Austur- Suður- og Vestur-land, þótt verið geti að hafís komi fyrir nokkrar sveitir Norðurlands.

En aðalástæðan á móti þessum nýja ekatti er sú, að skatturinn yrði svo þungur á landsmönnum, og eru þó skattarnir nógu þungir fyrir. Þeir eru ekki svo fáir fyrir skattarnir, þó ekki sé þessum nýja skatti bætt við. Slík gjöld og þetta yrði, eru t. d. ellistyrktarsjóðsgjald og gjaldið í vátryggingarsjóð sjómanna. Þetta eru skattar, sem hafa mikil útgjöld í för með sér, enda þótt lagðir séu á þjóðina í góðu og gagnlegu augnamiði. En þessi skattur er alveg ónauðsynlegur og Við verðum að athuga, að verði frumvarpið að lögum, þá höfum við enn á ný lagt 50 þús. kr. skatt á fátæka þjóð. Því hver tvítugur karlmaður á að greiða 1 kr., en hver tvítugur kvenmaður 60 aura.

Þetta gjald verður fátækum heimilum mikil byrði, byrði sem eg vil ekki leggja á heimilin.

Það væri sök sér ef menn vissu það fyrir með áreiðanlegri vissu, að hallæri mundi koma yfir landið, en nú þegar þetta er að eins bygt á trú eða von um að hallæri komi, þá er þetta frumvarp óhafandi, og ætti hér í deildinni að fá þau óþrif að það horaðist upp og misti lífið.

Þegar um svona skattaálögur er að ræða, held eg að það sé sjálfsagt að bera þær undir kjósendurna. Það má vel vera að svarið verði það sama og oft hefir verið áður þegar um vilja kjósendanna hefir verið að ræða, svarið, að kjósendurnir hafi ekkert vit á því. Það er alveg eins og sumir háttv. þm. áliti það vera heilaga skyldu sína að vera nokkurs konar fjárhaldsmenn þjóðarinnar. — Þeir halda fram, að almenningur hafi hvorki vit né vilja til þess að sjá fótum sínum forráð, og því verði þeir að taka í taumana og finna meðölin, eins og nú þegar hallærissjóðurinn á að vera »general«-meðal gegn hallærunum, sem hann þó aldrei verður, þegar af þeirri ástæðu, að eg er þess fullviss að veikin — hallærið — sem lækna á, muni aldrei koma yfir þjóð vora attur, á þann veg er hallæriskrákurnar halda fram.

Eg skal enda ræðu mína með þeim orðum, að þeir, sem vilja hamra þessum skatti í gegn um háttv. deild, eru að leika sér með fé þjóðarinnar, ekki sízt fátæklinganna.