03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í C-deild Alþingistíðinda. (1404)

93. mál, hallærisvarnir

Matthías Ólafsson:

Það hefir verið sagt, að mönnum þætti vænna um börn sín en foreldra, að mönnum þætti vænna um vonirnar, sem er framtíðin, en fortíðina. En ef vonirnar eiga að rætast, verður að hlúa að þeim með fyrirhyggju og gera eitthvað fyrir þær. Þess vegna er ekki unt að neita því, að þetta frumv. er fram komið af einlægri löngun til þess að afstýra því, að óhöpp þau sem oft hafa dunið yfir þetta land, komi fyrir aftur. Ef ekki eru sett nein bjargráð, getur enginn maður, nema þá sá einn, sem ekkert þekkir til sögu þessa lands, annað en móðuharðindin og og fjárkláðann, þrætt fyrir það, að slíkt gæti komið fyrir aftur. Það getur komið að því, að hafis spenni landið heljargreipum, svo að leiði til óárana, fjárfellis og jafnvel manndauða. Hvað stoðar oss þá bættar samgöngur á sjó og landi? Þá koma oss ekki að haldi eimskipafélög né járnbrautir.

Háttv. framsögum. hældi forfeðrum vorum á söguöldinni fyrir fyrirhyggju í þessum efnum. Það er satt, en síðan dofnaði þjóðin og flaut sofandi að feigðar ósi. Þjóðin stendur ekki vel að vígi í efnalegu tilliti, þess mega menn ekki ganga duldir. Því er þetta frumv. orð í tíma talað. Ef forfeður vorir hefðu byrjað á slíkum sjóð, þá mundum vér standa betur að vígi nú. Það er satt, sem skáldið kvað:

Feðranna dáðleysi er barnanna böl, og bölvun í nútíð er framtíðar kvöl.

Það er skylda vor gagnvart eftirkomendum vorum að tryggja þá, eins og oss er unt fyrir hugsanlegum óhöppum. Fyrir hverja erum vér að rækta skóga? Ekki fyrir oss. Nei, en hver góður drengur lætur sér ekki nægja, að sjá að eins fyrir sínum eigin munni og maga, hann hugsar um þá sem eftir hann eiga að byggja landið og hann sér í anda landið bætt og prýtt, og það hlægir mig, er eg hugsa til þess er landið verður fagurt og frítt og skógum vafið, eins og það getur orðið.

Eg skal fúslega kannast við það, að það getur orðið erfitt fyrir fátæklinga að greiða þetta gjald, en það þarf ekki að vera endilega nefskattur, enda væri eg tregur til að vera með slíku ákvæði skilyrðislaust. En svo vill til, að ákvæði er í 8. grein frumv. um, að fara megi eftir efnum og ástæðum, ef í harðbakka slær. Það þarf ekki endilega að heimta 1 kr. af fátækum karlmanni eða 60 au. af fátækum kvenmanni, ef sveitafélaginu, sem þau teljast til, þykir það óráðlegt, og verður þá sveitarfélagið að svara fyrir þeirra hönd.

Eg vona, að það dragist ekki lengi, að sjóðurinn verði stór, því eg vona, að ekki þurfi mjög bráðlega að skerða hann, og mundi hann þá verða til þess að auka lánstraust landsins, því að hann er ljósastur vottur um, að Ísland er menningarland, eins og vér vonum allir, að það verði, en ekki er enn orðið nema að nafninu.

Eg þykist nú vita, að jafnvel í mínu kjördæmi séu sumir ef til vill svo skammsýnir, að þeir verði óánægðir með þetta frumv., því að þar kemur aldrei harðæri; sjórinn er örlátur og flutningar hafa sjaldan tepst. En eg tel það nær að sjá fyrir framtíð landsins, heldur en fara að vilja skammsýnna kjósenda í þessu efni.

Áður en eg lýk máli mínu, skal eg taka það fram viðvíkjandi brtill. háttv. 2. þm. G.-g. (gr. D.), að hræddur er eg um það, ef ekki verður lögskyldað að leggja í þennan sjóð alment, að þá muni sumir draga sig í hlé, svo að lögin koma ekki að fullum notum.

Eg mun hiklaust greiða atkv. með frumv., þrátt fyrir þær afleiðingar, sem það kann að hafa fyrir mig persónulega.