03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í C-deild Alþingistíðinda. (1406)

93. mál, hallærisvarnir

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg er einn þeirra sem sæti eiga í nefndinni. Eg hafði í fyrstu tilhneiging til að ganga með háttv. 2. þm. G.-K. og veita honum fylgi að því, að frumvarpinu yrði breytt þannig, að héruðin væri látin ráða, hvort þau tæki á sig þetta gjald. Það virðist svo í fljótu bragði, sem mörg héruð séu þau, sem aldrei þurfi að kvíða hallæri. En þegar eg hugsaði málið betur, fann eg það, að það er varlega fullyrðandi; og svo fann eg, að Það er skylda alls landsins að hlaupa undir bagga, þegar einhver hluti landsins er þjakaður af óárani. Þess vegna varð eg samferða meira hluta nefndarinnar.

Eins og það þykir ekkert sældarbrauð að komast á sveitina, þannig er um héruð landsins, ef þau verða bjargþrota, að betra er að þau þiggi hjálp frá landinu, en séu komin upp á náð útlendinga og safnað sé samskotum utanlands til þeirra, eins og komið hefir fyrir.

Þetta vegur svo mikið í mínum augum, að eg vil lögbjóða almenna gjaldskyldu til þessa sjóðs. Eg óttast það, að ef héraðunum er heimilað val um þetta, verði mörg þeirra til að hliðra sér hjá gjaldinu. Það má segja, að það sé ekki réttlátt gagnvart þeim héruðum, sem aldrei kynnu að þurfa að nota þennan sjóð, að skylda þau til að gjalda í hann; þetta sé þeim dauður fjársjóður. En sjóðurinn er ekki einskis verður fyrir þá heldur en aðra, því að þegar sýnt er, að landið þarf ekki að verja neinu af sjóðnum til hallærisvarna, þá má heimila, að verja skuli vöxtum eða nokkurum hluta þeirra til þjóðþrifa. Enginn skaði er að eiga sjóðinn; alt af má nota hann.

Þótt mitt kjördæmi þurfi héraða sízt að kvíða hallærum, þá er eg samt samþykkur frumvarpinu. Eftir skýrslum Hannesar byskups Finnssonar í Félagsritunum gömlu, hefir fólki jafnan fjölgað í Suður-Múlasýslu, er hallæri hafa gengið. yfir landið alment. því að menn hafa flúið þangað til að leita sér bjargar. En það sæmir ekki nokkurum þingmanni að líta á sitt kjördæmi eitt, heldur á hver þingmaður að hugsa um hag alls landsins. Hér má og benda á biblíusetninguna: »Sá sem þykist standa, gæti að því að hann falli ekki«.

Þegar eg hugleiddi framangreind atriði, misti eg tilhneiginguna til að fylgjast með háttv. 2. þingmanni G.-K. og hneigðist að tillögum meira hlutans.