05.09.1913
Neðri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í C-deild Alþingistíðinda. (1442)

21. mál, íslenskur sérfáni

Matthías Ólafsson:

Háttv. formaður nefndarinnar sagði, að sér hefði komið það mjög á óvart, að við, háttv. 1. þm. Rangv. og eg, skrifuðum undir nefndarálitið með fyrirvara. Eg skil ekki í þessum orðum háttv. þingmanns. Við tókum það einmitt fram í meferð málsins, að við vildum helzt, að ekki yrði neitt hróflað við þessum lögum, og þó að Við myndum ekki koma fram með neitt ágreiningaálit, þá áskildum við okkur þó rétt til þess að skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Svo vildi eg með fáum orðum leyfa mér að svara því sem háttv. 2. þingm. G.-K. (Kr. D.) sagði um þetta ákvæði, hvort það væri réttlátt eða ranglátt.

Þetta dæmi um stúlkuna, sem háttv. þm. kom með, var afar-hart fyrir dvalarsveitina. En gerum nú ráð fyrir, að þessi stúlka hafi verið alin upp í sinni framfærslusveit fram til fermingaraldurs, en þá fyrst þegar hún gat farið að vinna nokkuð að gagni, hafi hún farið úr sveitinni og unnið annarstaðar. Þá er það líka hart fyrir framfærslusveit hennar, að taka hana aftur upp á sinar herðar, þegar hún er orðin veik og getur ekkert unnið sveitinni að gagni. Það er augljóst, að það er ranglátt að hreppur beri byrðar manns, sem aldrei hefir unnið honum neitt gagn. Þetta hérna er því ekki annað en að skift er um ranglæti, af dvalarhreppnum og á framfærsluhreppinn.

Það hefir verið sagt hér, að þetta gengi mest út yfir kaupstaðina. Það er ekki rétt. Það gengur einmitt mest út yfir sveitirnar. Menn alast upp í sveitunum og fara til kaupstaðanna þegar þeir fara að geta unnið fyrir sér. Vinna svo í kaupstöðunum á meðan þeir geta, taka hús á leigu, borga húsaleiguna á meðan þeir geta unnið; yfirleitt vinna kaupstöðunum alt sem þeir geta unnið. Og svo fyrst þegar þeir hætta að geta unnið, þá eru þeir fluttir aftur til framfærsluhrepps síns, sem svo verður að annast þá upp frá því. Þeir eru orðnir ósjálfbjarga aumingjar og geta ekkert gagn gert. Þessir menn eru því sveitunum til byrða, en kaupstöðunum til hagnaðar. Og vegna þess að fólk flykkist til kaupataðanna, þá eru þeir kaupstöðunum til hagnaðar að því leyti líka, að vinnan lækkar í verði, því það er algild regla, að þar sem nóg er eftirspurnin eftir vinnu, að þar lækka vinnulaunin. Í kaupstöðunum lækka vinnulaunin, en hækka í sveitunum.

Eg þykist nú hafa sýnt það með skýlausum rökum, að það er ranglátt að framfærsluhreppur beri allar byrðar af ómögum, sem aldrei hafa orðið hreppnum að neinum notum. Bezta bótin væri því, að dvalarhreppar stæðust allan kostnað af þurfalingum. Og þó svo sé ekki nú, þá er þó millivegurinn í fátækralögunum, og þeim millivegi vildi eg óska að yrði haldið framvegis, þangað til bezta úrlausnin fæst, sú, að dvalarhreppar beri allar byrðar af þurfalingunum, en því takmarki yrði ákaflega erfitt að ná. En að fara nú að fara aftur frá þessum millivegi, yrði að eina til þess að koma þeirri reglu á, að dvalarsveitirnar gætu kastað burtu beinunum, en étið sjálft ketið.

Auðvitað getur það stundum verið afar hart fyrir dvalarsveitirnar að bera kostnað af sjúkling, sem að eins hefir dvalið þar atund, en aftur á móti er það ekki nema sjálfsagt, að dvalarhreppurinn beri byrðarnar af þeim þurfalingum, sem hafa verið þar fjöldamörg ár. Þeir þurfalingar eiga því ekki nema sanngjarna kröfu til þess að dvalarsveitin ali önn fyrir þeim, þegar þeir eru hættir að geta unnið.