06.09.1913
Neðri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í C-deild Alþingistíðinda. (1449)

26. mál, sparisjóðir

Kristinn Daníelsson:

Eg vildi að eins gera stutta athugasemd, sem ekki snertir efni málsina. Eg verð að bera af mér þær aðdróttanir, sem háttv. framsögum. meiri hlutans (M. Kr.) vill halda að mér, að eg hafi jafnvel sýnt ódrengskap gagnvart nefndinni. Magnús Kristjánsson: Það sagði eg alls ekki). Háttv. framsögum. (M. Kr.) segir, að eg hafi aldrei hreyft þessum athugasemdum mínum í nefndinni. Eg lét það hvað eftir annað í ljós í nefndinni, að eg teldi það varhugavert að binda þannig hendur sparisjóðsstjórnanna og festa þannig fé sjóðanna eina og ákveðið er í frumvarpinu. Hitt er annað mál, að eg hreyfði ekki mótmælum á móti br.till. meiri hlutaus. Eg fann enga ástæðu til þess, því að eg var þeim samþykkur. En það sannar ekki, að eg hafi ekki viljað fleiri og frekari breytingar.

Eins og allir vita, er það venja í nefndunum, að fara fyrst fljótlega yfir frumvörpin, er þær hafa til meðferðar, til þess að glöggva sig á þeim, og síðan er farið vandlega yfir þau. En vegna naumleika tímans var síðari, vandlega, yfirferðin aldrei viðhöfð af nefndinni í þessu máli. Eg man eftir því, að eg gat þess einu sinni, að nú væri rétt að fara yfir frumvarpið alt, til þess að vita hvort það gæfi ekki tilefni til nýrra athugasemda. En ofan á, varð; að það var aldrei gert. Svo þegar háttv. minni hluti nefndarinnar kom fram með álit sitt, þá hallaðist en að tveimur tillögum hans eftir nokkra umhugsun, með því að eg áleit þær miða til nokkurra bóta, þó að þær fullnægðu mér ekki algerlega.

Eg get fúslega kannast við, að málið hefir orðið ljósara fyrir mér af viðtali við aðra menn. En er þurfti engar upplýsingar til þess að sjá, að ýmislegt í þessu frv. mundi koma í bága við núverandi starfsfyrirkomulag sparisjóðanna, ef það næði samþykkt. En það vil eg algerlega bera af mér, að eg hafi komið öðruvísi en heiðarlega fram við nefndina. Eg skrifaði líka undir nefndarálit meiri hlutaus með fyrirvara, og það nægði til að sýna að eg var honum ekki að öllu leyti samþykkur.