09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (146)

39. mál, skipun læknishéraða

Halldór Steinsson:

Því hefir verið haldið fram af þjóðinni og þingm., að óhæfa væri að fjölga embættum fram yfir það sem er, heldur bæri að fækka þeim. En landsmenn hafa ekki verið sjálfum sér samkvæmir í þessu, því að á mörgum undanförnum þingum hafa legið fyrir óskir um stofnun nýrra læknishéraða. Eg fyrir mitt leyti mun greiða atkv. með stofnun nýrra læknishéraða, ef þau hafa þau skilyrði, sem nauðsynleg eru til þess að þau geti þrifist. Í fyrsta lagi, að þörfin sé brýn. Í öðru lagi, að ekki sé klipið svo mikið af nágrannahéruðunum, að læknar í þeim verði fyrir verulegum tekjumissi og í þriðja lagi, að héruðin séu svo fólksmörg, að læknirinn geti lifað af aukatekjunum í viðbót við hin fastákveðnu laun. Eg veit ekki, hvort héraðið, sem farið er fram á að stofna í þessu frv , hefir þessi skilyrði. Mér finst því sjálfsagt, að það sé athugað í nefnd, því að ef til vill koma fram fleiri frumv. líks efnis, sem sama nefnd gæti þá fjallað um.

Því hefir verið haldið fram, að landssjóður þyldi ekki útgjöldin, sem fljóta af fjölgun embætta og hækkun embættismanna launa. Hér er ólíku saman að jafna, þar sem þjóðin sjálf biður um aukin útgjöld, þegar um stofnun nýrra læknishéraða er að ræða, en í launahækkunnarfrumvörpum stjórnarinnar eru það, þeir, sem launin þiggja, embættismennirnir, sem fara fram á hækkunina; á þessu er mikill munur.

Breytingar, þær sem þegar hafa verið gerðar á læknalögunum frá 1907, sýna, að þau lög eru ekki vel úr garði gerð, og er því ekki vanþörf á að athuga vandlega þær kröfur, sem fram koma frá landsmönnum um breytingar á lögunum.

Eg leyfi mér að styðja till. háttv. síðasta ræðumanns um 5 manna nefnd að lokinni umræðu.