08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í C-deild Alþingistíðinda. (1465)

93. mál, hallærisvarnir

Framsögum. (Ólafur Briem):

Jafnvel þótt frumvarpið tæki töluverðum breytingum við 2. umr., hefir nefndin þó komið fram með nokkrar brtill. á þgskj. 751 og þar reynt að taka til greina, eftir því sem hún sá sér fært, bendingar þær og athugasemdir, sem þá komu fram frá einstökum þingmönnum.

Mótbárur, þær sem komu fram við 2. umræðu, voru aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi þótti ýmsum það varhugavert, að lagður væri nefskattur á til þess að mynda þennan sjóð og auka þannig in persónulegu gjöld, sem jafnan koma þyngst niður á inum efnaminni. Mönnum þótti þetta varhugavert, jafnvel þótt í frv. væri heimild til þess að jafna gjaldinu niður eftir efnum og ástæðum eða greiða það úr sveitarsjóði. Þótti mönnum engin trygging vera fyrir því, að sú heimild yrði notuð.

Til þess að mæta þessum kröfum leggur nefndin til að breyta 2. gr. þannig, að gjaldið skuli jafnan greitt úr sveitarsjóði eða bæjarsjóði og þá sé gjaldið ekki miðað við aldur eða kynferði, heldur bundið við mannfjölda yfirleitt, 25 aura fyrir hvern mann, sem heimilisfastur er í sveitarfélaginu þegar manntal er tekið, önnur aðalmótbáran gegn frv. var sú, að gjaldið væri þungt, hvort sem litið væri til einstakra manna eða sveitarsjóðanna.

Úr þessu hefir nefndin einnig reynt að bæta.

Eftir frv. mundi gjaldið, sem hvíla mundi á sveitunum samkvæmt síðasta manntali, hafa numið 38,000 krónum. Þetta leggur nefndin til að lækka um 44%, þannig að samkvæmt brtill. nefndarinnar verður gjaldið samtals 21.000 kr. En samhliða þessu, að gjaldið er fært yfir á sveitasjóði, þótti nefndinni, eins og áður er tekið fram, heppilegra og einfaldara að miða ekki gjaldið við aldur né kyn, heldur láta það vera jafnt fyrir alla, sem sé 25 a. á hvern mann. Með þessu álítur nefndin, að trygging sé fengin fyrir því, að gjaldið komi hvorki ranglátlega niður, né verði tilfinnanlegt.

Samkvæmt síðustu manntalsskýrslum eru hreppar hér á landi 197, að frádregnum kaupstöðunum og Vestmannaeyjum, með samtals 65,851 íbúa, eða að meðaltali 334 menn í hverjum hreppi. Með 25 aura gjaldi á hvern mann nemur því gjaldið af hverjum hreppi að meðaltali 83 kr. Vitaskuld er það, að hrepparnir eru mismunandi að fólksfjölda, sumir fjölbygðari en þetta meðaltal sýnir. Með þessari lækkun og því fyrirkomulagi, sem nefndin leggur til að hafa á innheimtunni, álitur nefndin hóglega í sakirnar farið og lögin muni ekki valda óánægju né baka mönnum tilfinnanlega útgjaldabyrði. Fyrst og fremst er þess að gæta, að gjaldið verður séreign hverrar sýslu eða kaupstaðar og er alls ekki almennur skattur, heldur verður miklu fremur að skoðast sem iðgjald fyrir vísan aðgang að fjárstyrk eða lánveitingum með góðum kjörum til hjálpar í brýnni þörf, ef neyð ber að höndum. Í öðru lagi er ekki ætlast til, að gjaldið verði notað sem eyðslufé, heldur renni í sjóð, sem ætlast er til að ávaxtist og margfaldist og ekki verði skertur að því er höfuðstólinn snertir, nema þá að eins í bili. En komi það fyrir, að sjóðurinn gangi til þurðar þegar í harðbakka slær, er svo ráð fyrir gert, að bann fái það uppbætt þegar betur lætur.

Önnur brtill. á þgskj. 751 miðar að því, að færa til landssjóðstillagið, þannig, að í stað þess að eftir frumv. á að greiða 40 aura til sjóðsins úr landssjóði fyrir hvern, sem orðinn er fullra 25 ára, leggur nefndin til, að landssjóður leggi fram 25 aura fyrir hvern mann í landinu. Lætur þá nærri, að útkoman verði sú sama, en er þó dálítið hærri samkvæmt brtill.

Aðrar breyt.till. nefndarinnar eru að mestu afleiðingar af þessum tveim aðalbreytingartillögum, og skal eg ekki eyða orðum að þeim.

Þá skal eg snúa mér að breyt.till á þgskj. 766, frá háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), sem fer fram á það, að breyta einu orði í fyrstu brtill. nefndarinnar á þgskj. 751, setja »má« fyrir »skal«. Þó þetta sé ekki nema eitt orð, þá hefir það afarmikla þýðingu að því leyti, að þar með er breytt grundvallaratriði laganna, sem er, að allir landsmenn taki höndum saman um þetta mál. Nefndin skoðar þetta aðalkjarna málsins, og getur með engu móti lagt til, að breyt.till. verði samþykt.

Vona eg að með þessum breyt.till. nefndarinnar, sem miða að því að gera frv. aðgengilegra fyrir þá sem andmæltu því við 2. umræðu, fái frumv. jafngóðar eða betri undirtektir en þá, og verði nú samþykt til fullnaðar í þessari háttv. deild.