08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í C-deild Alþingistíðinda. (1469)

93. mál, hallærisvarnir

Lárus H. Bjarnason:

Eg á ofboð stutta breyt.till. á þgskj. 766 við breyt.till. nefndarinnar á þgskj. 751.

Það var réttilega athugað hjá háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.), að þetta sé meira en orðabreyting, enda átti það svo að vera. Eg gat þess á dögunum, að ekki væri fyrirsjáanleg brýn nauðsyn til að stofna þennan bjargráðasjóð nú þegar og því hefir enginn mótmælt með nægilegum rökum. Það er ekki fyrirsjáanlegt nú fremur en endranær yfirvofandi hætta af eldgosum, hafís, drepsóttum eða því um líku, en eg varð var annarar hættu í morgun, meira að segja hér innan þings — í efri deild — eg á við heigulsháttarins, kaupskaparins, svikanna, í einu orði sagt, siðspiliingarinnar miklu hættu, og við henni dugar enginn bjargráðafjársjóður. Hallærishætta er aftur á móti engin, sízt almenn, en álögurnar, sem ætlast er til að demba á þjóðina, eru ekki litlar, þó að þær séu nú orðnar minni, en til var stofnað í fyrstu, vegna mótspyrnu okkar, sem andæft höfum frumvarpinu.

Í árslok 1910 voru hér á landi 85,183 manneskjur. Á hvert nef á að leggja 25 aura úr landssjóði, og 25 aura úr sveitarsjóðum. Þetta verður samtals kr. 42,591,50 og er það ekki lítill skattur og tekinn beint úr vösum almennings, því að þetta yrði nefskattur fyrir því, þótt sveitarsjóðir og landssjóður séu notaðir sem miðlar, því að einhvern veginn verða landasjóður og sveitastjórnir að jafna akattinum niður á gjaldendur, frá einhverjum verður skattinn að taka, sá »einhver« er almenningr. Að demba slíkum skatti yfir þjóðina að henni fornspurðri og að nauðsynjalausu, er óforsvaranlegt, enda ætti að nægja að gefa heimild til áminstrar skattheimtu.

Það sagði einhver þingmaður, sem ristir ekki djúpt, eða hefir að minsta kosti ekki lagst djúpt nú, að það væri hlægilegt að gefa heimild til að stofna slíkan sjóð sem þennan. Hann veit þó, eða ætti að vita, að samkvæmt stjórnarskránni má engan skatt heimta án lagaheimildar. Heimildin ætti auk heldur að réttu lagi ekki að ná nema til norðursýslnanna, Þingeyjarsýslu, Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu, Húnavatnssýslu og Strandasýslu, því að þær eru einu sýslurnar, sem í verulega hættu gætu komist af völdum hafíss. Í þessum sýslum eru sem stendur 22,728 menn, og eg tel víst, að þótt ekki væru búin til nema heimildarlög, þá myndu þær nota sér heimildina, ef nauðsynin er eins mikil og flytjendur málsins halda fram, og þá fengju þær 11,364 krónur, 5682 kr. úr landssjóði og annað eins úr héruðunum sjálfum, auk þess, sem Eyjafjarðarsýsla og Akureyri fengju úr Gjafasjóði Jóns Sigurðssonar, sem á að vera til varnar í hallæri. Eg tók þetta og fleira fram við 2. umræðu málsins, og nenni ekki að vera að rekja það alt upp aftur. Mér finst það óforsvaranlegt að leggja jafn þungt gjald á þau héruð, sem eru fyrir utan alla hættu, og svo verður um þau flest. Á Reykjavíkurhérað eitt kæmi yfir 3000 kr. og gæti eg búist við að Reykvíkingum þætti það drjúgur ábætir á þau gjöld, sem þeir þegar þurfa að greiða, það því fremur, sem gjöldum hér er alt af að fjölga og þau hækka, sem fyrir eru. Sjómannaheimili yrði t. d. upp og niður að borga kr. 1,75, og eg get fullvissað háttv. þm. um, að það eru mörg heimili hér í bæ og hér á landi, sem því miður munar um minna. Þess vegna hefi eg komið fram með breyt.till. um að heimta megi þennan skatt í atað þess að frumvarpið ákveður að hann skuli heimta. Eg bið hæstv. forseta, þegar til kemur, að láta greiða atkvæði með nafnakalli um breyt.till. mína. Ef hún gengur fram, mun eg greiða atkvæði frumvarpinu, en gangi hún ekki fram, mun eg greiða atkvæði móti því, hvað sem eg kynni að gera, ef kjósendur hefðu fengið að átta sig á frumvarpinu.

Að öðru leyti leyfi eg mér að vísa til ins ítarlega erindis míns um málið við 2. umr. þess.