08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í C-deild Alþingistíðinda. (1472)

93. mál, hallærisvarnir

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg stóð aðallega upp út af nokkrum orðum, sem féllu hjá háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B ). Hann sagði, að ekki v æri fyrirsjáanleg nein brýn nauðsyn til að stofna þennan bjargráðasjóð nú. En hvenær á þá að gera það ? Á þá fyrst a stofna sjóðinn, þegar hallæri er komið? Það er seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í.

Hann sagði og, að þetta yrði tilfnnanlegur skattur á landsmönnum, og sama sagði háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), að þessi skattur væri tekinn úr vasa landsmanna. Þetta er líka alveg rétt. En mér er spurn, úr hvers vasa ætti að taka fé til að fyrirbyggja hallæri hér á landi, ef ekki úr vasa landsmanna sjálfra? Við höfum ekki álögurétt á aðrar þjóðir, og eg býst við að mönnum þyki hvorki heppilegra né sæmilegra að þurfa að grípa til þess að sníkja á þær, ef hallæri bæri að höndum, heldur en að eiga sjálfir sjóð, sem gæti bætt úr vandræðunum.

Það hefir verið talað um hallærishættu af hafís, en af honum stafar ekki slík hætta beinlínis, því að skip geta nú orðið alt af komist að landinu. En það er annað, sem getur bakað hallæri. Það er brestur á atvinnu. Þegar atvinnuvegina þrýtur, svo að þeir geta ekki framfleytt fólkinu hjálparlaust, þá er hallæri. Og hvernig árar hjá okkur í sumar? Það er fyrirsjáanlegt, að menn verða að lóga talsverðu af fénaði sínum hér sunnanlands vegna slæmrar heynýtingar, sem aftur stafar af óþurkum og litlum grasvexti. Ef við fáum svo 1–2 ár eins í viðbót — hvað þá ? Þá er komið hallæri. Það hefir nú viljað svo til, að þessi slæma tíð hefir komið yfir Suðurland í sumar, og það er oft góðæri fyrir norðan og austan þegar hér er óáran, og svo aftur ið gagnstæða, að þegar sífeldir óþurkar eru fyrir norðan og austan, getur hér verið gott árferði.

Þetta hefir komið áður, ekki að eins eitt ár í einu, heldur líka 2–3 ár í röð, og þá er lítt hjákvæmilegt að hallæri komi. Og þar sem talað hefir verið um, að hallæri gæti ekki komið fyrir vegna þess að breytingar hafa orðið svo miklar á högum manna frá því sem áður var, þá vil eg geta þess, að í þeim einasta hluta landsins, þar sem aldrei hefir orðið mannfellir af hallærum, í kjördæmi mínu, Múlasýslunum, þar sem alt af fjölgaði fólkinu, þegar því fækkaði annarstaðar á landinu, — þar eru nú orðnar svo miklar breytingar á atvinnuvegum manna frá því sem áður var, að ef hallæri dyndi nú yfir landið, þá mundi það ekki koma síður niður á þessum landshluta en öðrum. Áður lifðu menn þar mest á landbúnaði, en nú lifa menn í þessu plássi fult svo mikið á fiskiútvegi eins og landbúnaði, og er því þetta pláss ekki lengur óhult fyrir hallæri Eg minnist þess nú, að fyrir eitthvað 10 árum skrifuðu mér 20 menn af Eskifirði og báðu mig að fá því framgengt, að þeir yrðu fluttir ókeypis til Grænlands, svo þeir þar gætu haft ofan af fyrir sér. Gátu þeir þess, að það væru einir 60 menn aðrir, sem óskuðu þessa sama. Eg bar nú aldrei fram þessa ósk þeirra, en skrifaði þeim og benti þeim á önnur lönd, sem myndi vera heppilegra fyrir þá að flýja til. Að þeir vildu fara til Grænlands, hugsa eg að hafi helzt verið af því, að þeir héldu að þeir gætu komist þangað ókeypis, en það gætu þeir ekki, færu þeir til annara landa. Þetta sýnir, að menn óttast hallæri eins í þessum hluta landsins og öðrum. Eg er því á þeirri skoðun, að þessu máli eigi ekki að fresta, og því líklegra er að haliæri komi, sem lengra er síðan það kom.

Og þetta gjald, sem brtill. nefndarinnar leggur til að lagt verði á hreppana, er ekki svo tilfinnanlegt, að það beri að horfa í það, því það er að eins nauðsynleg trygging fyrir því, að þessi sjóður verði stofnaður, og allir eru á einu máli um það, að þennan sjóð eigi að stofna. Vona eg því, að brtill. háttv: 1. þm. Rvk. verði feld, enda er brtill. hans ekki annað en litið breytt tillaga, sem var feld hér við 2. umr. um að alt yrði látið drasla í sama horfinu og áður.