09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (150)

39. mál, skipun læknishéraða

Björn Kristjánsson:

Eg skal leyfa mér að benda háttv. þm. S -Þing. (P. J.) á, að þetta mál var fyrir þinginu 1912. Þá var beðið um 6 ný læknishéruð og voru þær beiðnir allar fengnar sömu nefndinni til athugunar. Nefndarálitið ber það með sér, að nefndin hefir komist komist að þeirri niðurstöðu, að fylsta þörf sé á fjölgun læknishéraða. Það getur vel verið að enn þá sé skortur á læknum. En þeim fjölgar. Það kemur af sjálfu sér með því að þeir menn, sem ganga skólaveginn, leggja stund á það nám, sem þeir sjá að verður þeim lífvænlegt. Þó engir læknar bætist við eitt árið, þá geta margir bæst við næsta ár. Og þó að læknishérað sé skapað, þá liggur engin skylda á stjórninni, að setja lækni í það, ef enginn læknir er til. Þessvegna er engin ástæða til að amast við stofnun þessa nýja héraðs, og eg skil ekki í því að nálega sama þingið, sem áður hefir verið hlynt fjölgun læknishéraða, færi nú alt í einu að snúa Við blaðinu og gera þvert ofan í það, sem það hefir áður gert. Það væri skiljanlegt, ef um væri að ræða nýtt þing með flestum nýjum þingmönnum.

Það virðist vera sjálfsagt að láta þetta mál ganga í nefnd; sennilega koma nú aftur fram beiðnirnar frá 1912 og mætti þá vísa þeim til sömu nefndar.