12.07.1913
Efri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

34. mál, lán til byggingar íbúðarhúsa á prestssetrum landsins

Eiríkur Briem:

Áður en umræður hófust, leyfði jeg mjer að óska þess, að 5. br.till. nefndarinnar yrði borin upp í tvennu lagi, og það væri vegna þess, að hún skiftist í raun og veru í tvð atriði, er ekki standa í því sambandi hvort við annað, að síðara atriðið hljóti að fylgja hinu fyrra, eða leiða af því, eins og háttv. framsögurn. (E. J.) líka gat um. Það má vel greiða atkv. með því að fella burt úr þeim lögum, sem hjer ræðir um breyting á, orðin: „eða með frávikningu frá embætti um stundarsakir“ án þess að þurfa svo að greiða atkvæði með því ákvæði, sem háttv. nefnd leggur til að setja í staðinn. Það mundi í reyndinni verða mjög erfitt að beita þessu ákvæði. Það er hætt við, að erfitt veiti að fá góða ábúð á jörðinni gegn sæmilegu endurgjaldi, þegar ábúðarrjetturinn er ekki nema til árs og árs í senn. Það gæti jafnvel beinlínis verið í prestsins þágu, að losna við ábúðina, því að hann fengi þeim mun meira endurgjald úr Prestslaunasjóði, sem eftir gjaldinu næmi, er honum var reiknað, en Prestslaunasjóður biði hallann við það, sem jörðin kannske leigðist lægra. En það eru, sem sagt, miklar líkur til, að leigan yrði lág, því að fæstir mundu vilja rifa sig upp frá ábúðarjörðum sínum fyrir að eins eitt ár, þeir er annars ættu kostar, eða leigja jörð til aðeins eins árs. Afleiðingin yrði því sú, að það þyrfti að auka gjöld til presta úr Prestslaunasjóði, ef því yrði nokkuð beitt. En í framkvæmdinni hefði það að líkindum enga þýðingu, gerði ekkert gagn.

Það er — að jeg ætla — vangá hjá háttv. nefnd í 3. br.till. hennar, er hún bindur lán til þeirra kaupa, sem þar ræðir um, eingöngu við kaup á járnvörðum timburhúsum. Það er enn meiri ástæða til að kaupa íbúðarhús, ef þau eru úr steini eða steinsteypu. Jeg vona, að háttv. nefnd komi með br.till. hjer að lútandi við 3. umr.