12.07.1913
Efri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

39. mál, skipun læknishéraða

Guðjón Guðlaugsson:

Það var góð og skýr ræða sem háttv. 6. kgk. þm. (G. Bj.) flutti, en fór fyrir ofan garð og neðan við það, sem hjer liggur fyrir, því hún sýndi aðeins það eitt, að læknahjeruð þau, sem stofnuð verða, geta ekki átt von á því að fá lækni í bráðina, en hinsvegar getur læknum fjölgað, svo þau geti fengið lækni síðar, ef hjeraðið er stofnað, og ef svo er gert, þá hafa þau meiri von um það, og geta lifað við hana fyrst um sinn.

Það er alt annað mál, hvað eigi að gera til að fjölga læknum, bezta ráðið til þess mun vera að hækka laun þeirra, en eg hygg, að almenningur líti svo á, sem þau sjeu fullhá, að minsta kosti í þeim hjeraðum, þar sem nokkur praxis er að mun.

Það getur vel verið, að það sje þýðingarlítið fyrir sveitarbúa fyrst um sinn, þó að hjerað þetta verði samþykt, því enginn fáist læknirinn, en það kemur þá heldur Ekki til kasta landssjóðs að greiða launin, því neðsta lína frumv. segir, að breyting þessi öðlist þá fyrst gildi, þegar Borðeyrarhjerað verði veitt umsækjanda. Og þó lögin verði aðeins pappírslög fyrst um sinn, þá halda þau þó dyrunum opnum, svo að hægt verður að veitá hjeraðið með fjölgandi læknum. Embættismannæfnum fer fjölgandi, og það er ótrúlegt, að menn taki að lesa þær greinar, sem svo margir eru fyrir, að lítil eða engin von er um nokkra atvinnu, t. d. lögfræði. Jeg veit, að það eru margir, sem eru hjer í Reykjavík, sem hafa litla atvinnu og mjög litla von um að geta fengið embætti, fyr en þá máske á gamalsaldri. Mjer finst, að embættin eigi að vera til, svo dyrunum sje haldið opnum og hægt sje að veita þau hæfum mönnum, er þeir gefa kost á sjer. Jeg hygg það sje rjettara, en að búa fyrst til mennina og síðan stöðuna á eftir handa þeim. Jeg tel það því rjettara að búa til starfann — eða embættið — þar sem hans er þörf, án þess að taka tillit til þess, hvort maður er fáanlegur í það strax eður ekki, en að búa til einhvert embætti aðeins í gustukaskyni við einhvern, sem ekki getur lifað.