15.07.1913
Efri deild: 9. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

34. mál, lán til byggingar íbúðarhúsa á prestssetrum landsins

Framsögumaður.:

Jeg vil minna á það, að í 1. gr. frv. stendur, að ekkert lán megi fara fram úr 5000 kr.; þetta er hámarkið, og má búast við því, að ekki muni allar lánveitingar ná því. Við lánveitingar mun stjórnin sjálfsagt taka tillit til þess, hve verðmikil staðarhúsin eru, sem niður eiga að falla og haga lánveitingunni eftir því. En því hagar einmitt svo, að víðast þar sem mest er þörfin á byggingarlánunum, þar eru húsin, sem fyrir eru á prestssetrunum, lítilsvirði, og því þörf fyrir sem fylsta lánspphæð. Jeg tel það mjög ólíklegt að bændur leiðist til að byggja dýrara en góðu hófi gegnir við það, að 5000 kr. lán er veitt til húsbyggingar á prestssetrinu þeirra. Jeg hef það traust á hyggindum flestra bænda, að þeir muni sníða sjer stakk eftir vexti með húsabyggingar hjá sjer, og að þeir muni ekki stæla bygginguna á prestssetrinu, nema þeim sýnist það við sitt hæfi. og sjer hagkvæmt. Hina, sem ekki kunna sjer hóf, mun verða torvelt að verja með löggjöf við glappaskotum.