15.07.1913
Efri deild: 9. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

53. mál, friðun fugla og hreindýra

Sigurður Stefánsson:

Jeg er sammála hv. 3. kgk. (St. J.), um að mál þetta eigi að ganga til rjúpnafriðunar-nefndarinnar, þar á það heima.

Jeg er samdóma hv. flutningsmanni (G. G.) um það, að ástæða sje til að athuga málið í nefnd; og til leiðbeiningar fyrir þá nefnd, vildi jeg leyfa mjer að hreyfa einu atriði. Hv. flutningsmaður (G. G.) tók það fram, að hólmar þeir, sem hann hefði sjerstaklega fyrir augum, væru litlir og lágir og örðugt um æðarfuglinn í þeim; og því hlyti það að verða hnekkir fyrir æðarvarpið, ef lundanum leyfðist að haldast, þar við í næði og grafa í sundur landið. Fyrst svona er ástatt, dettur mjer í hug, að ekki sje ólíklegt, að æðarfuglinn muni flækjast í netunum, sem spent eru yfir lundaholurnar, þegar hann er á vakki um hólmana, og að þessar veiðibrellur geti þannig orðið hættulegar æðarfuglinum, sem þó á að vernda með þeim. Reyndar tel jeg það sjálfsagt, að varpeigendurnir munda hætta að nota þær, ef þeir sæju, að þær yrðu sjer til tjóns í staðinn fyrir að gera gagn. Eigi að síður er þó ástæða til að taka þetta til athugunar.