16.07.1913
Efri deild: 10. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

52. mál, sala á þjóðjörðinni Reykjum í Hrútafirði

Steingrímur Jónsson:

Eg kann betur við að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frumvarps, áður en gengið verður ta atkvæða.

Jeg hef alt af verið á móti þjóðjarðasölu. Jeg álít það hafi ekki verið heppilegt, þegar þing og stjórn komst inn á þá braut; að selja þjóðjarðirnar og kirkjujarðirnar, og allra sízt með þeim feikna hraða, sem hefur verið á því hin síðari ár. Og jeg lít svo á, að þessi jarðasala muni ekki reynast bezti vegurinn til þess að bæta búskapinn eða auka ræktun landsins, og að hefði mátt finna mikið betri leiðar að því takmarki.

Ég hlýt því að vera á móti öllum sjerlögum, til þess að selja jarðir þær, er þjóðin á, nema það sje hægt að sýna fram á, að alveg sjerstakar ástæður mæli með sölunni. Og jeg get hugsað mjer, að svo sje í einstöku tilfellum, t. d. sala til sveitafjelaga, eða þar sem einhver hefur fengið á leigu verðlítið kot fram til dala, þar sem landið sjálft er mjög lítils virði, og gert þar svo stórfeldar jarðabætur, að þær eru margfalt meira virði en jörðin var áður. Þá eru engin líkindi til að hann mundi fá umbæturnar endurgoldnar; og gæti því verið rjett, að selja honum jörðina. Hjer liggur ekkert það fyrir, er sýnir að um slíkt sje að ræða, og eru skjölin þó greinileg.

Stjórnarráðið hefur að minni hyggju neitað að selja jörðina, ekki vegna orða, heldur vegna efnis 2. gr. þjóðjarðasölulaganna, og er heppilegast að láta við svo búið standa.