16.07.1913
Efri deild: 10. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

52. mál, sala á þjóðjörðinni Reykjum í Hrútafirði

Þórarinn Jónsson:

Jeg get ekki sjeð, að það hafi neina þýðingu, þótt jeg fari að svara hinum háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. Jónsson) um þjóðjarðasöluna alment og færi að sýna fram á, hversu hún er heppileg (Steingr. Jónsson: Það yrði klipt og skorið). Alveg rjett. En því vil jeg spá, að langt verði þangað til, að sambandinu milli landsdrottins og leiguliða verður komið í það horf, að líklegra verði til stórra framfara í ræktun landsins heldur en sjálfsábúð. Sú trú getur ekki skapast nema um leið sje myrt öll reynsla fyr og síðar í þessa átt.

Eg ætla heldur ekki að fara út í það, að sýna fram á, að einmitt sjálfsábúðin hefur orðið mesta lyftistöngin til búnaðarframfara hjá mestu landbúnaðarþjóðum annarsstaðar.

En þó menn líti nú svo á, sem þjóðjarðasala sje yfirleitt ekki heppileg, þá sje eg ekki annað en menn geti eftir ,sem áður greitt atkvæði með þessu frumvarpi, því eftir eðli sínu ber að selja jörð þessa eftir þjóðjarðasölulögunum. Ábúendur jarðanna mega ekki vera háðir alveg sjerstöku tilfelli um það, hvert þeir fái ábýljörð sína keypta eða ekki, eins og hjer á sjer stað. Á það verður einnig að líta. Og þess vegna er engin sanngirni, að synja þessum ábúanda að fá jörðina keypta.

Frv. samþykt með 11 atkv. gegn 1.

Fyrirsögnia samþykt án atkvæðagreiðslu. Frumv. vísað til 3. umræðu með 11 atkv. móti 1.