19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Umboðsmaður ráðh. (Kl. Jónsson):

Stjórnin getur verið þakklát hinni háttv. nefnd fyrir það, hvað vel hún hefur tekið þessu frv. og þar með viðurkent, að ástæða hafi verið til lagasetningar í þessu máli. Jeg sjé ekki betur, en að í álitsskjali nefndarinnar sje aðeins á tveim stöðum um verulegar breytingar að ræða, hinar brtill. eru, þótt margar sjeu, aðallega um tilfærslu greina, lítilfjörlegar orðabreytingar og því um likt, Samkvæmt stjórnarfrv. á kona, sem giftist manni að taka ættarnafn hans, ef hann hefur ættarnafn, en að öðrum kosti heldur hún sínu ættarnafni; hafi hún haft það áður. Hjer leggur nefndin til, að konan eigi að sleppa ættarnafni sínn og kenna sig við fornafn föður síns, ef maðurinn hefur eigi ættarnafn. Þessa brtill. tel jeg óheppilega. Það er kunnugt, að hjer á landi eru margar danskar konur, sem giftar eru íslenzkum mönnum, og virðist óviðurkvæmilegt, að neyða þær til með lögum, að kenna sig við fornafn föður síns, þar sem það vitanlega tíðkast nálega ekki í þeirra landi, að menn sjeu nefndir öðru nafni, en ættarnafninu. Kona, sem væri dóttir manns, er hjeti P. F. Hansen og venjulega kallaður aðeins Hansen, yrði t. d. að einkenna sig fyrir öllum lýð með því nafni föður síns, Peter eða Frederik, sem hún ef til vill aldrei hefði heyrt neinn nota, nema nánustu ættingja innan veggja heimilisins. Jeg hygg, að stjórnarfrv, sje nærtækara í þessu efni, og vil því ráða til, að brtill. nefndarinnar verði ekki samþykt. —- Þetta var nú önnur höfuð-brtill. nefndarinnar, en hin er sú, að óskilgetin börn skuli hafa rjett og skyldu til að bera ættarnafn föður síns. Jeg vil geta þess, að þegar frv. var samið, var þetta atriði vandlega íhugað í stjírnarráðinu. Frá gömlum tímum hvílir eins og blettur á óskilgetnum börnum, og svo ranglátt sem það er, verða þau enn þá fyrir margvíslegum rjettarmissi í löggjöfinni, fá t. d. ekki arf eftir föður eða föðurfrændur, nema þau sjeu arfleidd sjerstaklega. Það getur því virzt ósanngjarnt, að svifta þau þar á ofan rjetti til ættarnafns föður síns, en samt sem áður varð það ofan á, að þetta ákvæði var tekið inn í stjórnarfrv., og skal jeg nú gjöra grein fyrir, hvernig á því stendur. Jeg vil ekki minnast á þau tilfelli, þar sem fleirum en einum getur verið til að dreifa um faðerni. Slíkt er ekki óalment, og hafa á síðustu tímum verið kveðnir upp ekki allfáir úrskurðir, þar sem 2 eða 3 menn eru skyldaðir til meðlags með sama barninu. í slíkum tilfellum getur auðvitað ekki verið að ræða um ættarnöfn, því að þegar svo er ástatt, verða börnin í raun og veru að teljast föðurlaus. Hitt kemur hinsvegar þráfaldlega fyrir, að maður leyfir stúlku að sverja upp á sig barn, og bendir þá ólutaðeigandi oft á um leið, að stúlkan hafi átt mök við fleiri en hann. Í slíkum tilfellum virðist hart, að barnið hafi rjett til ættarnafns föður síns, það er eins og að þvinga því inn í asttina. Af þessari ástæðu tók stjórnin áminzt ákvæði inn í frv. sitt, en annars gjörir hún þetta atriði ekki að kappsmáli, því rjettarstaða óskilgetinna barna er mjög ranglát og þyrfti að breyta henni með Iögum. En meðan það er ekki gjört, virðist eðlilegast, að ættarnafnið fylgi arftöku.

Þetta voru nú að minni hyggju aðalbrtill. nefndarinnar, en jeg vil þó minnast á nokkur önnur atriði. Nefndin talar um kenningarnöfn, þ. e. nöfn, sem menn hafa í viðbót við fornafn og föðurnafn. Mjer er ekki fullljóst, hvað nefndin á við með þessu; ef til vill á kenningarnafn að merkja hið sama, sem auknefni, sem talað er um í upphafi 8. gr. stjórnarfrumv., en í því merkir auknefni og ættarnafn í raun og veru hið sama, stjórnin átti þar með við slík nöfn, sem ýmsir menn á síðari tímum hafa verið að taka sjer, t. d. Kjarval, Kamban o. fl., og er víst meiningin, að þessi auknefni verði ættarnöfn; að minsta kosti skildi jeg svo grein í Skírni, sem kom út fyrir nokkrum árnm og rituð var af einum þeirra manna, sem hefur tekið sjer slíkt nýnefni. Jeg hygg því, að þetta orð, kenningarnafn, sje óþarft, því að það mun tákna sama sem ættarnafn.

Hvað á orðið „venjulega“ í 1. málsgr., brtill. að þýða. Jeg sje að háttv. 2. þm. N.-Múl. hefur komið fram með brtill. um, að það verði felt burt, og vil jeg mæla með því, að það verði gert. — Í brtill. við 6. gr. frumvarpsins, eru ættarnöfn, sem enda á son, sen eða dóttur talin meðal hneykslisnafna. Það er satt, að ættarnafn, sem endaði á dóttur, væri sannkallað ónefni, en jeg veit ekki til, að nokkur maður hafi borið slíkt nafn. Jeg tek þetta fram vegna þess, að seinni tíma menn kynnu að halda, að þetta hafi einhverntíma verið tíðkanlegt, af því að það stendur í álitsskj. nefndarinnar. Jeg er samd. nefndinni, að endingin sem er óhæfileg, enda hafa slík nöfn, mjer vitanlega, ekki verið tekin upp síðustu 30–40 ár. En nokkrar af merkustu ættum landsins bera nöfn, er svo enda, og eru því öll líkindi til, að þau verði alllanglíf í landinu. Aftur á móti get jeg ekki hneykslast á endingunni son. Sú ending er höfð óbeygjanleg og virðist vera vel á því, bæði fyri karl og konu. — Í enda þessarar brtill, er ákvæði um, að leita skuli álits og hlíta úrskurði íslenzkukennarans við Mentaskólann jafnan þá, er einhver vill taka upp nýtt ættarnafn. Mjer hefði þótt viðkunnanlegra, að íslenzkukennaranum við háskólann hefði verið ánafnað slíkt úrskurðarvald. Það ætti ekki að gjöra honum lægra undir höfði en íslenzkukennaranum við Mentaskólann; þeir ættu að minsta kosti að vera jafn rjettháir í þessu efni.

Í brtill. við 2. gr. frumvarpsins virðist það princip brotið, að ættarnafnið skuli jafnan fylgja karlleggnum. Þar er sem sje ákveðið, að ef kona skilur við mann sinn að lögum, skuli henni frjálst að taka upp aftur ættarnafn sitt, hafi hún nokkurt ættarnafn átt, og ennfremur, að þau börn hennar, sem hún hefur foreldraráð yfir, megi einnig hafa nafnaskifti. Jeg hugsa, að þetta mundi valda óhæfilegum ruglingi, ef það yrði að lögum, og mundu ættfræðingarnir fá að kenna á því. Því miður virðist hjónaskilnaður fara meira og meira í vöxt, og er því hjer um allþýðingarmikið atriði að ræða.

Nafnfesti er gott og gamalt orð, en ekki kann jeg við að nota það eins og það er notað í brtill. nefndarinnar. Jeg hygg enda, að það sje alveg rangt, að nota það í þeirri merkingu, sem nefndin ætlast til. En sje það notað, þá nær það engri átt, að nota það eingöngu um þau leyfisbrjef, sem maður fær hjá stjórnarráðinu, til að breyta nafni sínu. Það ætti þá einnig að ná til svokallaðra konunglegra leyfisbrjefa, því stjórnarráðið gefur þau einnig út í nafni konungs „ad mandatum“, sem kallað er.

Það gleður mig að heyra, að hin háttv. nefnd hefur í hyggju, að koma fram með fleiri umbætur á frumv. við 3. umr. og vona jeg, að hún taki þá til íhugunar þær athugasemdir, sem jeg nú hef komið fram með.

Að lokum skal jeg geta þess, að þó að jeg sje hjer í umboði ráðherra, þá eru það mínar eigin skoðanir, sem jeg ber fram. Jeg hef ekki nærri altaf tíma eða tækifæri til þess að bera mig saman við ráðherra fyrir þingfundina, og verður því það, sem jeg legg til málanna oft að standa fyrir minn eiginn reikning.