19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Umboðsmaður ráðherra (Kl. Jónsson). Hjer er komið fram eitt frv., er miðar að því, að búta landssjóðinn niður í smáhluta. Þessi stefna er ekki ný, heldur hefur hún mjög magnast hin síðari ár. En þó að mjer og fleirum sje ekki um hana gefið, þá verð jeg þó að lýsa því yfir, að jeg finn ekki neitt sjerlega athugavert við þetta frv., því tilgangurinn er góður, sem sje sá, að efla sjávarútveginn. Jeg verð að játa það, að framkoma þessa frv. fremur gladdi mig, er jeg gætti þess, að samtímis kom fram frv. í háttv. n. d., um að botnvörpusektirnar rynnu í Fiskiveiðasjóð, því jeg verð að vera samdóma h. fltm. (Sig. Stef.) og h. nefnd um, að þetta fyrirkomulag, að verja sektunum til þess að vernda landhelgina, sje mikið heppilegra. Þegar litið er á styrk þann, er veittur hefur verið til landbúnaðarins og sjávarútvegsins, þá sjá allir, að þar er ekkert samræmi á milli, og það er sjálfsagt að efla sjávarútveginn meira en gert hefur verið.

Breytingartill. þá, sem nefndin kom fram með, að jafnan skuli ávaxta hjá Landhelgissjóðsins í Landsbankanum, verð jeg þó að telja varhugaverða. Þó jeg hafi í sjálfu sjer ekkert á móti því, að ávaxta sjóðinn í Landsbankanum, þá verð jeg þó að efast um, að Landsbankinn, og yfir höfuð hvor bankanna hjer sem er geti greitt alla upphæðina út, hvenær sem hennar kann að verða óskað, eins og þó hlýtur að vera meiningin eftir frumvarpinu.

Ef sjóður þessi hefði verið stofnaður árið 1901, sbr. nefndarálitið, og sektirnar árlega verið lagðar inn í Landsbankann, þá væri búið að greiða í sjóðinn sektarfjeð í þessi ár um 320 þús. kr.; þar við bætast svo tillög úr landssjóði, 5000 kr. á ári í 12–13 ár eða 60–65 þús. kr., og mætti því gera ráð fyrir, að sjóðurinn væri nú orðinn um 450 þús. kr. með vöxtum og vaxtavöxtum. Jeg tel þetta með rúmum tölum, en vitanlega má reikna það nákvæmlega ef vildi, en það skakkar aldrei miklu.

Það væri því hægt, fyrir þá upphæð, er sjóðurinn væri nú orðinn, eins og nefndin tekur fram, að fá bygt skip af stærð við Fálkann, jeg man auðvitað ekki með vissu hvað hann kostaði, en mig minnir að það væri um 1/2 milj. kr. Skip af þessari stærð er nú hægt að fá bygt á mjög skömmum tíma, svo að það tæki ekki nema 7–8 mánuði og þyrfti því, ef ákveðið væri t. d. nú að byggja skipið, að greiða út andvirði þess á sama árinu. En getur þá Landsbankinn snarað út upphæðinni svo að segja á einu ? Jeg efa, að hann geti það, nema þá með því, að segja upp lánum hjá mörgum viðskiftavinum sínum, og það mundi koma sjer mjög illa og baka mönnum óþægindi.

Og jeg segi þetta ekki alveg út í bláinn.

Á fyrstu árum stjórnarinnar hjer, hafði hún oft mikið fje í kassa, en sá siður var þá, og er raunar enn, er svo stendur á, að geyma ekki meira fje í kjallara en um 100,000 kr. Það kom því oft fyrir, er mikið fje var fyrir og farið var til Landsbankans, til þess að setja það þar á vöxtu, að Landsbankinn neitaði því viðtöku, vegna þess að hann treysti sjer ekki til þess að greiða það alt út í einu, sem við mátti búast. Þetta varð til þess, að því var stundum skift á milli bankanna, en stundum var bankanum hjálpað með því að leggja það inn á hlaupareikningskontó fyrir lægri vexti, og stundum var jafnvel meira fje fyrir hendi í kjallara, en þurfti að halda á í bráðina. Jeg verð því að efa það, að hvorugur bankinn sem er, mundi geta svarað út allri upphæðinni í einu. Þetta verð jeg að biðja háttvirta nefnd að athuga.

Það er gert ráð fyrir því í nefndarálitinu, að landsstjórnin semji skipulagsskrá og reglugerð fyrir sjóðinn, en jeg sje ekki, hvar heimild til þess er. Það er föst venja, að láta ákvæði um þetta standa í lögunum, og jeg fyrir mitt leyti kann mikið betur við það, þó það máske þyrfti ekki. Annars lægi nærri, að því ákvæði væri bætt inn í 6. gr. frumv. Þetta vænti jeg, að háttv. nefnd vilji gera svo vel að athuga.