19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

28. mál, ábyrgðarfélög

Steingrímur Jónsson, framsögumaður:

Jeg hef engu við það að bæta, sem jeg tók fram við 2. umr. þessa máls. Jeg ætla aðeins að minnast á þær breytill., sem fram eru komnar.

Þess er fyrst að geta, að nefndin tekur aftur tillögu sína á þgskj. 73, því að hún er innifalin í breytitill. hennar á þgsk. 107.

Til nefndarinnar hafa komið umkvartanir um, að það væri rangt, að undantaka frá ákvæðum frumvarpsins fjelög, er hjer hafa rekið ábyrgðarstarf 20 ár, og ekki önnur, og því hefur nefndin komið fram með þessa breytingartillögu um að færa 20 ár niður í 10 ár til samkomulags, með því að henni var ekkert kappsmál ákvæðið um 20 ár.

Um breyttill., er fram hafa komið, er þess að geta, að nefndin fellst á, að hið almenna brunabótafjelag kaupstaðanna í Danmörku, sje tekið í 1. gr. Hins vegar verð jeg að endurtaka það, sem jeg sagði við 2. umr., að nefndinni þykir athugavert, að fella burt síðasta lið 2. greinar, og það af þeim ástæðum, er þá var bent á, að það má búast við, að brunabótafjelögin hætti ef til vill ábyrgðarstarfsemi hjer á landi. Nefndin játar að vísu, að eðlilegast væri, að öll fjelög sættu sömu kjörum í þessu efni. En stjórnin hlýtur að vera fróðari um þetta efni, en nefndin, og því hallast nefndin að skoðunum hennar.