19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

28. mál, ábyrgðarfélög

Sigurður Eggerz:

Það lítur út fyrir, að hæstv. fulltrúi stjórnarinnar (Kl. J.) sje allhræddur við breyt. till. okkar. Jeg skal ekki lá honum, að hann vill fara varlega. En þegar hann athugar málið rólega, mun honum ekki þykja það undarlegt, þótt umboðsmenn ábyrgðarfjelaganna geri nú alt, sem þeir geta til að koma inn ótta hjá þeim, sem þeir geta búizt við, að einhverju geti ráðið um úrslit málsins. Það getur enginn láð ábyrgðarfjelögunum, þótt þau vilji vera sem Iausust við allar kvaðir. Vjer vitum, að þau reka ekki starf sitt hjer, af því að þau vilji vinna landinu í hag, heldur til þess að græða. Ef einhver þau ákvæði væru í frv. þessu, sem leiddi til þess, að æla mætli, að ágóði þeirra hyrfi, þá hefðu menn ástæðu til að óttast, að þeir mundu háetta starfsemi sinni hjer. En í frv. finnast engin slík ákvæði. Það sjest á því, að sum fjelögin hafa nú þegar umboðsmenn hjer, og það geta ekki verið nein sjerleg óþægindi fyrir þau, að hafa hjer varnarþing líka, en hins vegar er það nauðsynlegt til verndar rjetti viðskiftamanna, að þau sömuleiðis setji tryggingarfje, en eftir þeirri varúð, sem háttv. fulltrúi stjórnarinnar (Kl. J.) vill að beitt sje til að fæla ekki fjelögin, er ekki hætt við, að tryggingarskilyrðin verði sett svo ströng, að nokkur frágangssök verði fyrir fjelögin að ganga að þeim. Eftir skýrslu stjórnarinnar eru fjelög þau, sem hjer starfa, rík, og því auðvelt fyrir þau, að setja tryggingu þá, sem heimtuð mun verða. Háttv. fulltrúi stjórnarinnar gat þess til viðvörunar, að niðursuðuverksmiðjan á Ísafirði hefði ekki fengizt vátrygð. Þetta dæmi sannar raunar meira en það átti að sanna; það sýnir það, að eins og nú stendur, getur staðið svo á, að eigur manna fáist ekki vátrygðar. Sannleikurinn er sá, að vátryggingarfjelögum fer hjer sífjölgandi; það er því sízt ástæða til að óttast, að þau muni hætta að starfa hjer, þótt frv. þetta verði að lögum; því jeg tek það aftur upp, að hjer er ekki verið að íþyngja þeim að nokkrum mun.

H. 1. kgk. (J. H.) spurði hversvegna við hefðum komið með breytingartill. á þingskj. 64. Jeg skýrði frá því áðan, en get skýrt frá því að nýju. Með undanþágunum í stj.frv. má segja, að vissum fjelögum sje veittur einkarjettur til að reka ábyrgðarstörf hjer á landi, að minsta kosti er ábyrgðarfjelögum gert miserfitt að vinna hjer, og dregur það úr eðlilegri samkepni, og líkindi fyrir, að menn komist fyrir bragðið ekki að jafngóðum kjörum sem ella. Jeg sje enga ástæðu til að fresta málinu enn einu sinni; mjer sýnist það svo einfalt og óbrotið, að öllum ætti að vera vorkunarlaust að hafa áttað sig á því.

Jeg skal enn taka það fram, að jeg skil ekki í, að nokkurt ábyrgðarfjelag móðgast svo við það, þótt öllum fjelögunum sje gert jafnt undir höfði, að það hætti fyrir það að starfa hjer.