21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

37. mál, hagstofa Íslands

Guðm. Björnsson, framsögumaður:

Eftir 2. umr, tók nefndin eftir því, að nokkur ósamkvæmni var í orðalagi 5. gr., sem stafaði af brtill., sem samþyktar voru við 2. umr. Nefndin hefur nú lagfært þetta með brtill. á þskj. 119. Jeg þarf ekki að benda á ósamkvæmnina milli 3. og 5. málsgreinar þessarar gr.; háttv. þingdeildarmenn geta sjálfir sjeð hana.

Nefndin hefur leyft sjer að gera þá litlu brtill., að hagstofustjórinn skuli venjulega hafa lokið háskólaprófi í stjórnfræði. Eins og kunnugt er, hafði nefndin áður lagt til, að hann skyldi hafa leyst slíkt próf af hendi, en háttv. deild vildi ekki fallast á þá tillögu. Nefndinni þykir þó líklegt, að þessi lítilfjörlega breyting finni náð fyrir augum háttv. deildar, því að allir eru víst sammála um, að maður með sjermentun eigi í raun og veru að hafa forgangsrjett til þessa embættis.

Úr annari átt hefur komið brtill. sú, sem er á þskj. 97. Þar er lagt til, að hagstofustjórinn hafi 3000 kr. laun á ári, sem fari ekki hækkandi, og að hann hafi ekki rjett til eftirlauna. Þessi tillaga er vitanlega sprottin af hinum mikla áhuga manna á því, að hafa öll embætti sem lægst launuð og eftirlaunalaus. Jeg ætla mjer ekki að tala nú um það málefni í heild sinni, en vil aðeins vekja athygli á því, að það er varhugavert að beita starfsmenn þjóðarinnar slíkum misrjetti, sem nú viðgengst hjer á landi, — að láta ekki eitt ganga yfir alla. Á síðari árum hafa verið sjerstaklega mikil brögð að þessu, því að mörg embætti hafa verið stofnuð með miklu lakari launakjörum en eldri embættin. Af embættum vorum álít jeg þau mestvarðandi, sem snerta þjóðina alla; þau álít jeg miklu þýðingarmeiri en hin, sem aðeins ná yfir eitt hjerað eða lítinn landshluta. Það virðist ekki sanngjarnt, að þeir menn, sem alsherjar embætti skipa, búi við lakari launakjör en hjeraðs-embætta menn. En hvorki landsverkfræðingur nje fræðslumálastjóri hafa t. d. rjett til eftirlauna, og ná þó embættisumdæmi þeirra um land alt. Bæði þessi embætti hafa verið stofnuð á síðari árum og bera þau menjar þess. — Hjer er um nýtt embætti að ræða, sem er mjög þýðingarmikið og vandasamt, og gæti jeg hugsað mjer, að stjórninni veitti fullerfitt, að fá hæfan mann í það, ef það verður svo launað, sem brtill. fer fram á, því að ekkert er eðlilegra, en að menn sækist eftir þeim embættum, sem eru betur launuð, sjerstaklega ef þau um leið eru vandaminni. Jeg hygg, að það verði fult svo áríðandi, að fá duglegan og hæfan mann í hagstofustjóraembættið eins og í skrifstofustjóraembættin í stjórnarráðinu, og virðist þá ekki sanngjarnt, að sá maður verði ver launaður en skrifstofustjórarnir. Jeg get því ekki talið þessa tillögu hyggilega og vona, að hún verði ekki samþykt. Jeg tel yfirleitt uggvænt, að menn fáist í mörg þau embætti, sem verst eru launuð, þegar stundir líða fram. Því að nú þegar eru ýmsar atvinnugreinar orðnar miklu arðvænlegri, en embættisvegurinn. Og er þá ver farið en heima setið, ef öllum hinum áhugamestu og efnilegustu meðal ungra manna er hrundið frá þeim störfum, sem þó eru og verða þýðingarmest fyrir þjóðina.