21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

37. mál, hagstofa Íslands

Júlíus Havsteen:

Jeg get ekki horfið frá þeirri skoðun, er jeg Ijet í Ijósi við síðustu umræðu, að mjer finst ekki þörf á þessari hagstofu nú. Á hverju þingi kemur upp einhver nýr kostnaður og nýjar og nýjar álögur eru lagðar á þjóðina, en einhverstaðar verður þó staðar að nema. Hvað nauðsynina á þessari hagstofu snertir, sje jeg ekki, að hún sje fyrir hendi, eða það er að minsta kosti margt nauðsynlegra, og við verðum altaf að taka það, sem nauðsynlegast er, og láta hitt bíða.

Jeg hef jafnaðarlega lesið þessar hagfræðisskýrslur, sem hjer er um að ræða, og jeg sje ekki annað, en þær sjeu vel af hendi leystar. Og jeg ætti að geta talað ofurlítið um þetta, þar sem jeg er annar þeirra tveggja íslenzku lögfræðinga, sem hef prófi við háskólann í „stitistik“. Það gladdi mig auðvitað að heyra, að „statistik“, sem jeg vil kalla hagfræði, en eigi talnafræði eins og háttv. framsm., væri afar vandasöm vísindagrein, en það voru ekki mín orð, heldur háttv. nefndar. Sjálfur hef jeg þar að auki samið ýmsar hagfræðisskýrslur, á meðan jeg var í stjórnarráginu fyrir mörgum árum, og eru þær að finna í dönskum stjórnartíðindum; svo að jeg ætti að geta talað um málið af dálítilli þekkingu. Háttv. framsm. (G. Bj.) sagði, að skrifstofustjórinn á 3. skrifstofu stjórnarráðsins hjer hefði mest afskifti af þessum skýrslum, og hann er, eins og h. framsm. sagði, mjög samvizkusamur og nákvæmur embættismaður. Það eitt hefur verið fundið að þessum skýrslum, að efnið væri stundum ekki svo vel dregið saman, sem æskilegt væri, eða með öðrum orðum, að það vantaði í þær efnisyfirlit. En slík yfirlit á hver sá, sem notar þær, að geta gert sjálfur, og efnið festist þá betur í minni hans, og menn hafa yfirleitt betra gagn af lestrinum með þessu móti. Þá hefur það og verið fundið að skýrslunum, að þær kæmu dræmt út. En hver er trygging þess, að þær kæmu fljótar út framvegis, þó að þessi hagstofa verði stofnuð, einkum ef fella á burtu annan af þeim tveim embættismönnum, sem hagstofunni eru ætlaðir í stjórnarfrumvarpinu.

Ef á hinn bóginn kemur til þess, að stofna ný embætti út af hagstofunni, þá er jeg alveg samdóma hinum háttv. umboðsm. ráðh. um það, sem hann tók fram um launakjör þeirra, sem í hlut eiga.