21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

37. mál, hagstofa Íslands

Björn Þorláksson:

Jeg og nokkrir deildarmenn höfum brætt okkur saman um breyttill. við frv. og háttv. framsögum. fjelst að sumu leyti á þær og að sumu leyti ekki.

Þessar brtill. okkar eru 2, og er fyrri tillagan í þremur liðum, og mun jeg óska þess, að atkvæði verði, þegar til kemur, greidd um hana í þrennu lagi Fyrsti liðurinn er um, hver hagstofunni eigi að stýra, annar liðurinn er um laun hans, og þriðji liðurinn er um aðstoðarmenn við starfið, að til þeirra megi verja alt að 2500 kr.

Jeg sný mjer nú að þessum brtill. Fyrst er þá að hagstofustjóri sje ekki konunglegur embættismaður, heldur skipaður af ráðherra. Við sjáum ekki ástæðu til, — enda þótt hjer sje um nauðsynjamál að ræða, að gera honum hærra undir höfði en mörgum óðrum starfsmönnum landsins, er vandasömum störfum gegna,. t.d. símastjóra, fræðslumálastjóra, vegagerðastjóra og vitamálastjóra. Það hefur verið tekið fram, að hjer væri um gagnlega stofnun að ræða, og jeg felst fyllilega á það, En jeg get ekki sjeð, að hún verði neitt gagnlegri fyrir það, að forstjóri hennar fái veitingu að embætti sínu frá konungi, heldur en ef hann fengi hana frá ráðherra. Jeg tel mjög varhugavert að svo vöxnu máli, að fjölga konunglegum embættum. Jeg tel víst, að þá komi þessir starfsmenn, er jeg nefndi áðan, og krefjist þess, að. verða konunglegir embættismenn og með. eftirlaunarjetti, og væri þá erfiðara að neita þeim um það.

Þá er annað atriðið, að vanalega hafi; þeir einir rjett til þessa starfs, er lokið hafa háskólaprófi í stjórnfræði. Við flutningsmenn feldum okkur ekki við, hvernig atkvæðgreiðslan fór um það efni við seinustu umræðu; þá var feld tillaga um, að. þeir einir hefðu rjett til embættisins, sem lokið hefðu stjórnfræðisprófi við háskólann. Við álitum einmitt, að reglan ætti að vera sú, að þeim einum yrði veitt þetta fyrirhugaða embætti eða starf, er leyst hefði þetta próf af hendi, en vildum hinsvegar ekki rígbinda það við próf, því að hugsanlegt er, að fram komi maður, er vildi fá stöðuna, og yfirburði hefur fram yfir þann,. sem prófið hefur, og þá væri illa farið að bægja honum frá með þessu atkvæði. Það var mikið um þetta talað við síðustu umræðu, og sumt af því hefði víst mátt vera ótalað. Ef veiting embættisins er rígskorðuð við stjórnfræðispróf, gæti líka hugsast, að skortur yrði á mönnum í stöðuna, sjerstaklega ef eftirlaunarjettur fylgdi henni ekki, eins og hjer er stungið upp á. Jeg er sjálfur að vísu ekki hræddur við þetta, en jeg tala frá sjónarmiði þeirra, sem hræddir eru um, að nýtur maður fáist ekki í hana, ef eftirlaun fylgja henni ekki.

Þá förum við ennfremur fram á það, að laun hagstofustjóra verði 3000 kr. en sjáum ekki ástæðu til að láta þau fara hækkandi upp í 4200 kr. Ekki heldur þykir okkur þörf, að hann hafi fyrst um sinn hærri laun en vegagerðastjóri og fræðslumálastjóri. Mjer finst 3000 krónur falleg og sæmileg laun. Það getur vel verið, að þetta komi til af því, að jeg bý ekki hjer í bænum, heldur á heima í sveit, og það má vel vera, að jeg líti öðrum augum á þetta, ef jeg byggi hjer í Reykjavík. Ef það reyndist, að launin yrðu of lág, og stöðuna hreppir maður, sem leysir starf sitt vel af hendi, þá er honum í lófa lagið að fá hækkun á þeim. Þá kemur að 3. lið fyrri breytingartillögunnar, og er breytingartillaga við þá breytingartillögu, að fyrir „til aðstoðar“ komi „til aðstoðarmanna“. Og geng jeg að því vísu, að það verði samþykt. Við viljum heldur orðalagið: „til aðstoðarmanna“ en „til aðstoðarmanna eins eða fleiri“; vildum ekki, að einn maður gæti tekið alt fjeð, alt að 2000 kr. Þá viljum við hækka fjárveitinguna upp í alt að 2500 kr. Og væri þá hægt að hafa tvo aðstoðarmenn fasta, ef þyrfti, annan með 1500, hinn með 1000 kr. launum.

Seinni brtill. á þgskj. 97 er eðlileg afleiðing af fyrri breyttill. Það þarf ekki að fjölyrða um hana. Hún er sjálfsögð, ef brtill gengur fram.

Háttv. 6. kgk. þm. (G. Bj.) gerði mikið úr því, að hagstofustjóri væri misrjetti beittur, ef tillaga okkar næði fram að ganga. Þetta getur ekki talizt misrjetti, ef miðað er við fræðslumálastjóra og vegastjóra og þá starfsmenn landsins, sem jeg nefndi, Heldur gæti það kallazt misrjetti, ef miðað er við skrifstofustjórana í stjórnarráðinu, en það er ekki rjett að miða við þá, svo að hjer er ekki um misrjetti að ræða.

Háttv. 6. kgk. þm. (G. Bj.) og umbm. ráðh. (Kl. J.) viku að því, að hæfur maður mundi ekki fást í stöðuna, ef launin yrðu eins lág og lagt er til í brtill. okkar, ekki meira en 3 þús. kr. Jeg hygg, að ekki þurfi að óttast það. Jeg heyri sagt, að námið sje ekki erfitt. Sjálfur veit jeg auðvitað ekki um það. Hjer er fult af námsmönnum og útlit fyrir, að fult verði bráðum af kandidötum öllum svæðum, svo að næsta ólíklegt er, að það mundi koma fyrir, að ekki fengist maður hæfur í hagstofustjórastöðuna.

Jeg tók það fram, að æskilegt væri, að atkvæði yrðu greidd um tillöguna í þrennu lagi, og skýt því til háttv. forseta.