10.07.1913
Neðri deild: 8. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (165)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Jón Ólafsson:

Fleira forseti! Eg er ekki á móti nefndarsetningu, en eg vildi að eins vekja athygli á því, hvað verið er að gera með þessu frumv.

Norðmenn hafa getað og geta veitt óátalið í landhelgi fyrir Norðurlandi fyrir því, að Ísl. Falk sést þar aldrei. En síðan íslenzku botnvörpungarnir fóru að stunda þar hringnótaveiði, hafa þeir margoft kært Norðmenn fyrir landhelgisbrot og fengið þá sektaða. Eg veit að hæstv. ráðherra er það kunnugt. Og nú er svo komið, að Norðmenn þora ekki inn á landhelgissvæðið þegar íslenzku skipin eru þar.

Ef þetta frumv. yrði samþykt, yrði afleiðingin sú, að Íslendingum yrði bolað frá veiðinni, en Norðmönnum hleypt að í þeirra stað, því að þá yrði enginn til eftirlits eða til að sanna brot þeirra, fremur en áður. Atvinnuvegi landa vorra yrði hnekt til hagsmuna fyrir Norðmenn. Eins og nú er ástatt, eru íslenzku botnvörpungarnir 13, sem stunda veiði fyrir Norðurlandi, jafngóðir eða betri til landhelgisvarnar en 13 Valir. Ef Íslendingum yrði bolað í burtu frá landhelgisveiði síldar, mundu Norðmenn verða einir um hituna, og ráða einir lögum og lofum, einnig á markaðinum fyrir síld. Það geta þeir ekki nú, þar sem síldveiði Íslendinga nemur nú svo miklu, að þeir hafa mikil áhrif á markaðinn.

Eg bendi á þetta, að eins til að sýna, að það felst meira undir þessu frumv. en flestum dettur í hug við fljótan yfirlestur.