21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Einar Jónsson:

Háttv. 3. kgk. þm. hefur tekið fram alt, sem jeg vildi sagt hafa, nema aðeins eitt atriði. Á fundum út um landið hef jeg oft heyrt talað um afnám eftirlauna, og veit, að það er almenn ósk, að þau sjeu með öllu numin úr lögum. En jeg hef ætíð heyrt jafnframt lagða mikla áherzlu á það, að ef einhver embættismaður væri sjerstaklega góðs maklegur, þá væri sjálfsagt að veita honum sjerstök eftirlaun, og nema þau alls ekki við neglur sjer. Jeg get nú ekki skilið, að neinum blandist hugur um, að þjóðin mundi einmitt vilja veita þessum manni, sem nú ræðir um, hin hæstu eftirlaun. Hjer er um skáld að ræða, sem þjóðinni er sjerstaklega kært, og jeg hygg því, að þetta frv, sje í fylsta samræmi við hugsunarhátt þjóðarinnar í eftirlaunamálinu. Hjer ætti því engin eftirlaunagrýla að geta komið til mála. — Jeg mun þess Vegna óhikað greiða stjfrv. atkvæði mitt. Nefndin gerði og vel í að athuga það, að ef svo skyldi fara, að hitt frv. yrði samþykt hjer í deildinni, en þetta felt, þá er öldungis óvíst, hvernig því reiðir af í Nd., og gæti þá svo farið, að málið strandaði með öllu. Alþingi hefði þá gert Stgr. Thorsteinsson skapraun aðeins og sjálfu sjer lítinn sóma.