21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Sigurður Stefánsson:

Samkvæmt þeirri vitneskju, er háttv. umboðsm. ráðherra hefur gefið um þetta mál, er hjer ekki að ræða um fjárveiting, er þing eða stjórn á fyrstu upptökin að. Og hver á þá upptökin? það er skáldið sjálft. Hjer er því að ræða um, hvort vjer eigum að verða við óskum þessa háaldraða merkismanns eða ekki. Nú er fengin vitneskja um, að hann telur sjer fulla sæmd að þessum 1300 kr., ef hann fær þær. Og þá hvorki þarf nje á þingið að ganga í grafgötur um, hvort honum sje þetta til sæmdar eða ekki. Jeg vildi helzt, að frv. hefði verið samþykt orðalaust. Allar umræður um þetta mál, eins og þær hafa verið hjer í deildinni, fara fyrir ofan garð og neðan eftir þá vitneskju, er háttv. umbm. ráðh. hefur látið í tje.

Jeg vildi skjóta því til háttv. nefndarmanna, að jeg vona þess af þeim, úr því að þeir eru svona hræddir við eftirlaunanafnið, að því er þennan merkismann snertir, er verið hefur embættismaður þjóðarinnar 40 ár og sungið henni til ununar og uppbyggingar 60 ár, að þeir verði mótfallnir sumum skáldlaunum á fjárlögunum, sem orðin eru hrein og bein eftirlaun, þar sem þau ganga til þeirra skálda, sem því nær hafa þagað, síðan þeir komust á landssjóðinn, og hverra ljóð hafa sum verið andleg sóttkveikja í siðferðislífi þjóðarinnar.