22.07.1913
Efri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Steingrímur Jónsson:

Jeg og annar háttv. þingdeildarmaður höfum komið okkur saman um að bera upp dálitla breyttill. við þetta frumvarp, og vil jeg nú leyfa mjer að gera lítils háttar grein fyrir henni.

Jeg tók það fram í 2. umr., að jeg væri máli þessu mjög hlyntur og óskaði, að það næði fram að ganga. Jeg get þessa aftur til þess, að enginn skuli setla, að tillaga þessi sje fram komin til að spilla fyrir frumvarpinu eða verða því að falli.

Aðalástæður til þessarar brtill. eru í stuttu máli þessar:

Það er allathugaverð braut, sem þingið er komið inn á, er það er farið að skifta landssjóði í alls konar smásjóði. Viðlagasjóði hefir verið skift í marga sjóði. Í fjárlögunum eru nú tillög veitt ýmsum sjóðum, er þingið hefur litil umráð yfir. Jeg skal t. d. nefna: fiskiveiðasjóð, byggingarsjóð, kennara-styrktarsjóð. Enn fremur má nefna tillag til ellistyrktarsjóðanna og tillög til Búnaðarfjélags Íslands. Nú er farið fram á ný tillög eða hækkun á tillagi til þriggja sjóða. Í fyrsta lagi stofnun Landhelgissjóðs, í öðru lagi hækkun á tillagi til styrktarsjóðs kennara og í þriðja lagi, að 100 þús. kr. verði veittar til Landsbankans á ári hverju í 20 ár. Ef þessu heldur áfram, þá kemst innan skams í óefni, og má búast við, að þar komi, að þingið hafi litið að gera við fjármálin. En jeg játa fúslega, að þessi ástæða ein sje ekki nóg. Jeg skildi háttv. flutningsm. og tilgang hans með frv. þannig, að það væri tilætlunin, að safna í einn sjóð þeim óvissu tekjum, sem kæmu í landssjóð í fje, er goldið væri sem sektir fyrir veiðar í landhelgi. Þenna tilgang álít jeg góðan, einkum þar sem tekjugrein þessi er svo vaxin, að eigi verður mikið á henni bygt vegna óvissunnar. Þessum tekjum er líka bezt varið á þann hátt, er frv. ætlast til. Ef sektir þessar verða svipaðar og að undanförnu, og verða ávaxtaðar, sem frv. gerir ráð fyrir, nemur sjóður þessu eftir 12 ár kringum 200 þús. kr. auk vaxta og vaxta-vaxta, þó að landssjóður veiti honum ekkert tillag. Jeg sje því ekki ástæðu að veita það nú þegar. Hitt er sjálfsagt, að landssjóður hlaupi undir bagga, þegar sjóðurinn tekur til framkvæmda. Ef við förum að veita þetta tillag nú, þá er það af því, að við höldum, að við eyðum fjenu til einhvers óþarfa, treystum okkur ekki vel í þessu efni. Þessi 5000 kr. veiting er þá svipuð því, er foreldrar láta börn setja 1 kr. eða svipaðar smáupphæðir í sparisjóð, svo að þau kaupi ekki sælgæti fyrir fjeð. En við brúkum ekki minna fje fyrir það. Og eins og jeg sagði áðan, er sjálfsagt, að landssjóður hjálpi þessum fyrirhugaða landhelgissjóði, er fara á að nota hann.

Okkur flutningsmönnum er þetta samt ekki neitt kappsmál, eins og jeg sagði. En jeg vildi ekki láta málið ganga svo gegnum deildina, að ekki væri bent á þetta. Við greiðum atkvæði með frv., hver sem afdrif tillögu okkar verða.