22.07.1913
Efri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Guðmundur Björnsson:

Jeg hef skrifað undir brtill. á þgskj. 116, og skal jeg nú fara nokkrum orðum um málið.

Jeg man ekki til, að jeg hafi orðið jafnhissa á nokkurri ræðu, sem jeg hef heyrt haldnar hjer á þingi, eins og hinni hjartnæmu ræðu h. þm. Ísafj. (S. St.).

Hann útmálaði það mjög átakanlega, hve bráðnauðsynlegt það væri að vinda bráðan bug að landhelgisvörninni. En svo vill hann þó fara að safna fje í sjóð, sem hægt sje að gripa til einhverntíma síðar til landhelgisvarnar. Jeg er h. þm. (S. St.) alveg samdóma um nauðsyn landhelgisvarnarinnar; en það sem okkur skilur á er, að jeg vil vinda bráðan bug að því í verki, en hann vill fresta framkvæmdum. Jeg geri ráð fyrir að h. d. muni það, að þegar málið var síðast til umræðu hjer, hreyfði jeg því, að vel mætti vera, að það borgaði sig, að kaupa þegar í stað skip til strandvarnar, skip, sem stjórnin gæti jafnframt látið vinna, fleira fyrir sig. H. þm. (S. St.) lítur ekki við þessari tillögu, hann vill bara safna fje svo og svo lengi, og lofa útlendingunum á meðan að veiða fiskinn í næði upp í landsteinunum, og spilla veiði og veiðarfærum sjómannanna. Jeg skal játa það, að jeg er ekkert áfram um að safna fje landsins í sjóði, það eru lágir vextir, sem það gefur þar. Mjer þykir miklu nær, að því sje varið til nytsemdarfyrirtækja, þannig ber það landinu margfalda vexti.

Ef h. n. hefði farið fram á, að undinn væri bráður bugur að því, að gert væri út skip til strandvarnar á landsins kostnað, þá er líklegt, að jeg og fleiri hefðu verið með því. En jeg hef ekki orðið var við, að h. n. hafi undirbúið það mál að nokkru, eða leitað sjer minstu upplýsinga um, hvað slík útgerð mundi kosta. Þetta hefði hún átt að gera, ef henni hefði verið alvara með málið. Nú lendir það mest í tómu orðaglamri.

Jeg skyldi ekki hafa á móti, að landið safnaði fje, ef það hefði meiru yfir að ráða, en þyrfti til nytsemdarfyrirtækja, en svo mun eigi vera; og eins og jeg sagði áðan, vil jeg, að nytsemdarfyrirtækin sjeu látin sitja fyrir fjársöfnuninni.

Það er ekki lítið, sem landssjóður leggur af mörkum, ef hann afsalar sjer öllu sektarfjenu, fyrir landhelgisbrot, því að það er hans rjett eign, alveg eins og hvert annað sektarfje, sem í hann rennur. Það má gera ráð fyrir, að fje þetta nemi alt að 30,000 kr. á ári, og munar um að draga það frá arðsömum fyrirtækjum, en geyma það vaxtalítið í sjóði. Jeg held sannast að segja, að það sje sára lítill búhnykkur.

Það er langt frá mjer að vita áhuga h. þm. (S. St.) á þessu máli, eða öllu heldur ákafa hans. En jeg held það sje áreiðanlegt, að hann sje kominn út á villigötur, og jeg tel það skyldu mína, að reyna að leiða hann af þeim á rjetta leið.

Sjómennirnir hafa ekki gagn af því, þótt fje sje safnað í landhelgissjóð; útlendingarnir taka björgina frá þeim alveg eins fyrir því. Þeim verður þá fyrst gagn að fjárframlagi, þegar fjenu er varið til þess, að útvega skip, til þess að verja fyrir þá landhelgina, og það er brýn nauðsyn, að gera það sem fyrst.

Jeg stunda hvorki landbúnað nje sjávarútveg, en rjettlætistilfinning mín býður mjer að halla á hvorugan þennan atvinnuveg. og leiðrjetta; þegar jeg heyri aðra gera það. Einmitt nú tel jeg mig hafa tilefni til að gera það. Jeg hygg, að h. þm. (S. St.) hafi ekki verið allskostar rjettlátur, þegar hann var að gera upp á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins. H. þm. (S. St.) hefur sjálfsagt farið eftir verzlunarskýrslunum, þegar hann sagði, að landbúnaðurinn gæfi ekki af sjer nema 1/4 móts við sjávarútveginn. En þess er að gæta, að verzlunarskýrslurnar sýna ekki afurðir hvors atvinnuvegsins um sig, eins og þær ern, heldur aðeins, hvað flutt er úr landinu af þeim. Nú vita allir, að miklu meira er flutt úr landinu af afrakstri sjávarútvegsins en landbúnaðarins. En í raun og veru mun afrakstur landbúnaðarins vera miklu meiri en allur sjávaraflinn. Kæmu öll kurl til grafar, gæti jeg trúað því, að hlutfallið snerist við þannig, að afrakstur sjávarútvegsins yrði ekki nema 1/4, en landbúnaðarins 3/4. Mjer eru báðir atvinnuvegirnir jafn kærir, og jeg vil gera þeim báðum sem jafnast undir höfði.

Ýmsir nú á dögum halda því fram, að velmegun landsins hvíli nú mest á sjávarútveginum. Þessir menn skoða ekki málið ofan í kjölinn. Til þess að gera sannan samanburð, þarf að rannsaka, hve mikið hvor atvinnuvegurinn um sig gefi af sjer í raun og veru; þessi rannsókn hefur enn ekki verið gerð; yrði hún gerð, mundi það sýna sig, sem jeg sagði, að landbúnaðurinn gefi meira en sjávarútvegurinn. Það er full nauðsyn á, að þessi rannsókn fari fram, og árangur hennar komi fyrir almenningssjónir. Það gæti fyrirbygt það, að menn ljetu óljósar skýrslur leiða sig á glapstigu.

Jeg veit það, að afli togaranna okkar hleypir upphæðunum í verzlunarskýrslunum mikið fram. En ekki megum við skrifa alla þá upphæð tekjumegin í reikning sjávarútvegsins; útgerðin er dýr, margt þarf til hennar að kaupa frá útlöndum, og fremur fáir fá atvinnu við hann. Jeg veit, að togaraútvegurinn hefur hingað til gefið góðan arð, en hann hefur að mestu leyti verið gróðafyrirtæki fáeinna auðmanna. Bátaútvegurinn er aftur á móti atvinnuvegur alþýðunnar. Vjer megum því ekki leggjast undir höfuð, að hlynna að honum og vernda hann, og það þarf að gerast fljótt, en ekki með því að safna fje í sjóð, sem á að koma að gagni einhverntíma í framtíðinni, máske þá fyrst, þegar enginn bátur er orðinn eftir að vernda.

Jeg er í lengstu lög fús á að greiða atkvæði með fjárveitingunum til arðvænlegra fyrirtækja, sem brátt eiga að komast í framkvæmd. En jafn ófús er jeg á að greiða atkvæði með því, að landssjóður miðli af fje sínu til að koma upp hinum og þessum sjóðum, sem geymast eiga í bönkum um alsendis óákveðinn tíma. Jeg skyldi með ánægju greiða atkvæði með því, að veitt væri þrefalt eða fjórfalt hærri upphæð í þessu augnamiði, ef jeg vissi, að fjeð kæmi strax að notum; en hitt er mjer móti geði, að taka fje landsins frá þarfafyrirtækjunum og fastbinda það í ráðagerðasjóðum. Mjer sýnist það allálitleg fúlga, ef veittar eru alt að 30,000 kr. árlega, og finst, að h. þm. Ísafjk. megi vel við að una.