10.07.1913
Neðri deild: 8. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (168)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Bjarni Jónsson:

Eg verð að telja það óreynt og ósannað, að hringnótaveiði styggi Síldina á nokkurn hátt, og sömuleiðis óreynt og ósannað, að lagnetaveiði þurfi að leggjast niður, þó að hringnótaveiði sé stunduð jafnframt. Úr því að menn eru ekki vissir um þetta, er ekki rétt að gera tilraunir, sem eru svo dýrar, að þær skaða fjölda manna. Þess konar tilraunir eiga menn að spara sér, þangað til full vissa er fengin fyrir því, að þær hafi eitthvað að þýða.

Háttv. flutningsm. (St. St.) taldi það eina af höfuðástæðunum, að mönnum væri oft sýndur yfirgangur á þessu svæði, menn væru teknir með net og báta inn í hringnæturnar. En þar sem þetta gerist á landhelgissvæðinu, eiga þeir, sem fyrir yfirganginum verða, réttan aðgang að lögreglustjóranum; Sem að sjálfsögðu mundi sekta þá er yfirganginn hafa í frammi. Hitt er að vísu röggsamlegt, að reka öll skipin burtu fyrir það, að eitt þeirra eða svo hefir Sýnt yfirgang. En þá væri það löggjafarvaldið,, sem hefði yfirgang í frammi.

En þó að einhver þörf væri nú á því, að banna hringnótaveiði á landhelgissvæðinu, kæmi það bann ekki að notum, því að það gæti aldrei náð nema til íslenzkra skipa, eins og þeir sem á undan mér hafa talað, hafa margtekið fram. Það yrði að eins til þess að spilla atvinnu þeirra manna, er í landinu búa, en útlendingum til hagsmuna. Og þó að einstaka maður í Eyjafirði hefði einhvern skaða af hringnótaveiðinni, Væri aldrei hægt að meta hann á móti því, ef 7–8 botnvörpungum héðan úr Reykjavík og 5–6 skipum af Akureyri væri bannað að Sækja veiði þangað norður, því að sá skaði yrði margfalt meiri.

Það hefir einnig verið margtekið fram, að Eyfirðingar hafa alls engan skaða af því, þó að þessir fáu íslenzku botn vörpungar séu þar að hringnótaveiðum á landhelgissvæðinu, því að þeir verja landhelgina fyrir margfalt fleiri útlendum botnvörpungum, sem annars mundu gera þar mikinn óskunda. En það er fjarstæða að hugsa sér, að þeir mundu halda áfram strandvörninni fyrir þá menn, er hafa rekið þá burtu. Þeir mundu varla taka á sig langa króka inn á landhelgissvæðið til þess. Og svo er það ýmislegt fleira, sem gæti verkað á hugarfar þeirra manna, sem í íslenzku botnvörpungunum eru. Þeir mundu skoða í huga sér, hvað marga leppa útlend fyrirtæki hafa þar í landi, og margt fleira gæti komið þar til greina. Eg held að það sé hreinn og beinn óþarfi að málið gangi lengra.